Ákvað að vinna fyrst Íslandsmeistaratitilinn

Hildur Þorgeirsdóttir reynir skot að marki Stjörnunnar í leiknum í ...
Hildur Þorgeirsdóttir reynir skot að marki Stjörnunnar í leiknum í fyrrakvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hildur Þorgeirsdóttir varð Íslandsmeistari í handbolta í fyrsta sinn í fyrrakvöld, þegar Fram vann Stjörnuna. Hildur lék tvívegis til úrslita með Fram áður en hún hélt í atvinnumennsku til Þýskalands sumarið 2011, án þess að uppskera gullverðlaun, en var staðráðin í að ljúka verkinu síðar.

Það gerði hún þrátt fyrir að hafa spilað meidd og verið sagt að best væri að fara í aðgerð á öxl í janúar. Hildur vildi bíða með það þar til titillinn væri í höfn:

„Ég hef verið að glíma við axlarmeiðsli í töluverðan tíma. Þetta gengur svona upp og niður, kemur í bylgjum, en í janúar var þetta orðið virkilega slæmt og ég gat varla kastað bolta. Svona nokkuð tekur líka mikið á andlegu hliðina. Ég fór í myndatöku og það kom í ljós að ég þyrfti að fara í aðgerð, en ég var bara ekki alveg tilbúin til þess á þeim tímapunkti, því við [í Fram] ætluðum okkur stóra hluti,“ segir Hildur. Þessir stóru hlutir hafa nú orðið að veruleika, og Hildur getur farið í sína aðgerð í lok mánaðarins.

„Með hjálp lækna og sjúkraþjálfara tókst að „halda öxlinni á“, og ég verð að gefa Stefáni Baldvini [Stefánssyni, fyrrverandi leikmanni Fram] sjúkraþjálfara okkar stórt og mikið hrós. Hann vissi nákvæmlega hvernig meiðslin væru og meðhöndlaði þau."

Sjá viðtalið í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.