Sigtryggur undir stjórn pabba á ný

Sigtryggur Daði Rúnarsson hefur leikið mjög vel með Aue á ...
Sigtryggur Daði Rúnarsson hefur leikið mjög vel með Aue á tímabilinu sem er að ljúka.

Svo gæti farið að leikstjórnandinn efnilegi Sigtryggur Daði Rúnarsson leiki í efstu deild þýska handboltans á næstu leiktíð. Sigtryggur hefur farið á kostum með Aue á seinni hluta yfirstandandi leiktíðar, í þýsku 2. deildinni, en félagið gaf út fyrir skömmu að hann væri á förum frá því.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins verður Sigtryggur á næstunni kynntur sem nýr leikmaður Balingen, sem leikur einmitt undir stjórn föður Sigtryggs; Rúnars Sigtryggssonar. Rúnar þjálfaði Sigtrygg áður hjá Aue en var ráðinn til Balingen síðasta sumar.

Spurning um deild

Ekki er enn ljóst hvort Sigtryggur leikur með Balingen í 1. eða 2. deild, en liðið er í harðri fallbaráttu nú þegar fimm umferðir eru eftir af þýsku 1. deildinni. Liðið er ekki í fallsæti vegna betri markatölu en Íslendingaliðið Bergischer, en bæði hafa 17 stig líkt og Stuttgart sem er með bestu markatöluna og situr í 14. sæti. Þá er Gummersbach með 19 stig í 13. sæti og Lemgo í 17. sæti með 16 stig.

Sigtryggur, sem var í U20-landsliðinu sem varð í 7. sæti á EM síðasta sumar, er næstmarkahæstur hjá Aue í vetur með 114 mörk. Hann hefur skorað að meðaltali 6,4 mörk í síðustu tíu leikjum liðsins. sindris@mbl.is