„Getum borið höfuðið hátt“

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH.
Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér líður ekki vel á þessari stundu og er svekktur að þetta frábæra tímabil skyldi enda á þennan hátt,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, við mbl.is eftir ósigur sinna manna gegn Val í oddaleiknum gegn Val um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik í Kaplakrika í dag.

„Við vorum sjálfum okkur verstir í seinni hálfleiknum. Við klúðruðum endalaust dauðafærum. Við lentum í mótlæti, nokkrir dómar féllu á móti okkur og þegar þú skorar ekki úr urmul af dauðafærum þá vinnur þú ekki leiki,“ sagði Halldór Jóhann við mbl.is.

„En þrátt fyrir þennan ósigur getum við borið höfuðið hátt. Við erum með ungt lið og 17 ára stráklingur sló algjörlega í gegn og dró vagninn fyrir okkur á löngum köflum í þessu einvígi. Það er þungt að kyngja þessu fyrir mig og strákana en þegar við höfum jafnað okkur eftir nokkra daga þá sjá menn að þetta tímabil var ansi gott og lærdómsríkt.

Við ætlum að byggja ofan á þetta tímabil og mæta enn sterkari til leiks á næsta tímabili. Við gerðum okkar besta í þessu einvígi en því miður dugði það ekki til að þessu sinni,“ sagði Halldór en undir stjórn hans urðu FH-ingar deildarmeistarar. Hann skrifaði á dögunum undir nýjan samning við Hafnarfjarðarliðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert