Fer til Ungverjalands

Arna Sif Pálsdóttir í baráttu í landsleik gegn Þýskalandi.
Arna Sif Pálsdóttir í baráttu í landsleik gegn Þýskalandi. mbl.is/Styrmir Kári

Arna Sif Pálsdóttir, landsliðskona í handknattleik, hefur ákveðið að ganga til liðs við ungverska úrvalsdeildarliðið Debreceni DVSC. Hún hefur skrifað undir tveggja ára samning við félagið, sem hafnaði í fjórða sæti í ungversku deildinni á nýliðinni leiktíð. Ungverska úrvalsdeildin en ein sterkasta kvennadeildin í handboltanum í Evrópu um þessar mundir.

„Það er spennandi að komast í eitthvað nýtt,“ sagði Arna Sif í samtali við Morgunblaðið, en hún hefur leikið með franska liðinu Nice síðustu tvö ár en hafði áður verið í dönsku úrvalsdeildinni um sjö ára skeið hjá Horsens, Esbjerg, Aalborg og SK Aarhus.

„Ég þarf að gefa hressilega í fyrir næsta keppnistímabil því deildin í Ungverjalandi er hrikalega sterk en þangað hafa á síðustu árum safnast margar af bestu handknattleikskonum Evrópu,“ sagði Arna Sif, sem er afar spennt fyrir þeim áskorunum sem bíða hennar hjá ungverska liðinu.

„Ég lék á æfingamóti í fyrra í Ungverjalandi og þá fann ég greinilega hversu líkamlega sterkir leikmennirnir eru í Ungverjalandi. Það eru töluverð slagsmál í leikjum og frábrugðið því sem maður á að venjast. Ætli ég verði ekki bara að fara á námskeið í hnefaleikum í sumar. Ég verð að skoða það vel,“ sagði Arna Sif létt í lund, að vanda nýkomin úr sólbaði á frönsku Rivíerunni þegar Morgunblaðið náði af henni tali.

Nánar er rætt við Örnu Sif í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »