Frábært hvar sem litið er

Ólafur Guðmundsson átti mjög fínan leik í kvöld.
Ólafur Guðmundsson átti mjög fínan leik í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólafur Guðmundsson átti mjög fínan leik er íslenska landsliðið í handknattleik tryggði sér sæti á EM í Króatíu á næsta ári með því að vinna Úkraínu , 34:26 í Laugardalshöllinni í dag. Hann var sjálfur hæstánægður með leik liðsins. 

„Mér fannst við vera með leikinn í okkar höndum og stjórna tempóinu. Við vorum lausnir við því sem þeir voru að gera í sókninni og við vorum að fá auðveld mörk, sérstaklega í fyrri hálfleik. Mín tilfinning var sú að öllum leið vel í leiknum."

„Þetta var frábær leikur, hvar sem litið er á, vörn, markvarsla, hraðaupphlaup, sóknarleikur. Þetta var þéttasti leikurinn okkar í riðlinum og það voru rosa margir að spila vel. Þetta var síðasti leikurinn í riðlinum og kannski erum við búnir að spila okkur betur saman. Við réðum mjög vel við pressuna sem var á okkur í kvöld."

Ólafur hrósaði ungu leikmönnunum í hópnum sérstaklega. 

„Það eru fullt af strákum hérna sem voru að spila sínar fyrstu mínútur. Það eru ungir strákar sem hafa verið að spila með yngri landsliðum sem axla ábyrgðina rosalega vel. Við getum verið bjartsýnir. Það er gaman að vera kominn á stórmót, þar sem við höfum verið síðustu ár og ætlum að halda áfram að vera. Við eigum bara eftir að verða betri og betri fyrir lokamótið."

Ólafur segir leikinn hafa verið erfiðan að spila, en var samt sem áður mjög ánægður með sína eigin frammistöðu. 

„Þetta var erfitt, þeir eru líkamlega sterkir og það tekur mikla orku að spila vörn gegn þeim. Í sókninni komu fín mörk úr fínum skotum, en þetta rúllaði vel og mér fannst ég skila mínu vel, eins og allt liðið," sagði Ólafur að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert