Rússar missa af EM í fyrsta skipti

Ísland verður með á EM og fagnaði sæti sínu í …
Ísland verður með á EM og fagnaði sæti sínu í gærkvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gamla handboltastórveldið Rússland verður ekki á meðal þátttakenda í lokakeppni Evrópumótsins í Króatíu í janúar 2018. Það er í fyrsta skipti í sögu keppninnar sem Rússar komast ekki þangað, en þeir urðu Evrópumeistarar 1996 og fengu silfurverðlaunin í fyrstu keppninni, 1994, sem og í Króatíu árið 2000.

Rússar, undir stjórn Dmitri Torgovanov, gerðu jafntefli, 27:27, við Svartfjallaland í hreinum úrslitaleik liðanna í Moskvu um annað sæti 6. riðils á laugardaginn. Svartfellingum nægði jafntefli en Rússar þurftu sigur og fóru illa að ráði sínu því þeir misstu niður gott forskot eftir að hafa verið yfir í hálfleik, 16:11.

Patrekur Jóhannesson kom liði Austurríkis í lokakeppnina eftir sigur á Bosníu, 34:32, í hreinum úrslitaleik í Vín um annað sæti 3. riðils. Austurríska liðið var komið fimm mörkum yfir skömmu fyrir leikslok en Nikola Bilyk, leikmaður Kiel, skoraði 8 mörk fyrir Austurríki í leiknum.

Norðmenn unnu stórsigur á Litháen, 30:20, í hreinum úrslitaleik í Ósló. Sander Sagosen og Bjarte Myrhol gerðu 5 mörk hvor fyrir Noreg. Slóvenar voru ekki í vandræðum með Portúgala í úrslitaleik liðanna í Koper, 28:18, en liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn.

Mestu handboltaþjóðirnar sem sitja heima í janúar eru Rússar og Pólverjar, en pólska liðið var úr leik áður en kom að lokaspretti síðustu daga. Hér að neðan má sjá hvaða 15 lið fara í lokakeppnina ásamt gestgjöfunum, Króötum.

Danmörk, Ungverjaland, Hvíta-Rússland, Serbía, Spánn, Austurríki, Makedónía, Tékkland, Ísland, Þýskaland, Slóvenía, Svíþjóð, Svartfjallaland, Frakkland, Noregur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert