Eva Björk til Danmerkur – „Frábært tækifæri“

Eva Björk Davíðsdóttir í búningi Ajax frá Kaupmannahöfn.
Eva Björk Davíðsdóttir í búningi Ajax frá Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Heimasíða Ajax

Handknattleikskonan Eva Björk Davíðsdóttir mun leika í dönsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð, en hún er gengin í raðir Ajax frá Kaupmannahöfn eftir ársdvöl hjá Sola í Noregi þar sem hún spilaði síðasta vetur.

„Þegar þetta kom upp var það mjög spennandi, þetta er ungt lið þar sem ég mun vera vonandi í stóru hlutverki í deild sem er með þeim betri í heiminum. Þetta er bara frábært tækifæri,“ sagði Eva Björk í samtali við mbl.is í dag.

Lið Ajax mun á ný spila í efstu deild á næstu leiktíð eftir að hafa haft mikla yfirburði í 1. deildinni í fyrra.

„Það gekk voða vel í fyrra, mig minnir að þær hafi ekki tapað leik í 1. deildinni svo þær eru að koma sterkar upp. Það er hins vegar talað um að það sé smá stökk á milli deilda svo þetta verður örugglega barátta hjá okkur. Það er mikið af ungum og efnilegum stelpum í þessu liði sem er skemmtilegt umhverfi fyrir mig að koma inn í, stelpur svipaðar og ég með mikinn metnað sem langar að gera mikið,“ sagði Eva Björk sem er 23 ára gömul.

Finnur mikinn mun á sér eftir ár úti

Hún fór til Noregs síðasta sumar eftir að hafa verið einn af burðarásum Gróttu. Í Noregi telur hún sig hafa bætt sig mikið og er tilbúin í næsta skref.

„Já ég verð að segja það, mér finnst mikið muna eftir þetta ár úti. Norska deildin er mjög góð og ég var í góðu liði. Þetta er annað umhverfi en heima og ég finn mikinn mun á mér. Bæði er ég líkamlega sterkari og í betra formi, en líka handboltalega séð. Það gerir mikið fyrir mann að vera með svona góðum stelpum í svona góðu umhverfi.“

Eva samdi við lið Ajax til eins árs, en hún var með íslenska landsliðinu í verkefni í Kaupmannahöfn í lok júlí og varð svo bara eftir og fór beint að æfa með liðinu. Hún á að baki níu A-landsleiki og stefnir á að fá stærra hlutverk í landsliðinu í komandi verkefnum.

„Það hefur alltaf verið planið og ein af ástæðunum fyrir því að maður er í þessu. Ég finn það alveg í þessu umhverfi úti að möguleikinn er meiri og ég ætla að halda áfram að bæta mig. Ég vil verða betri með hverju skrefi,“ sagði Eva Björk Davíðsdóttir í samtali við mbl.is.

Eva Björk Davíðsdóttir í landsleik.
Eva Björk Davíðsdóttir í landsleik. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert