Ályktað um stöðu Arons

Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson.

Staða Arons Pálmarssonar hjá ungverska félaginu Veszprém var til umfjöllunar 8. ágúst á fundi hjá stjórn samtaka sem kallast Forum Club Handball. Stjórnin sendi frá sér ályktun þess efnis að fjarvera Arons frá æfingum væri „óásættanleg“.

Samninga ætti ávallt að virða og skipti þá ekki máli hvort um leikmann eða félag væri að ræða. Í ályktuninni er einnig lögð áhersla á að málið sé sérlega slæmt þar sem bæði Aron og liðið séu í fremstu röð í íþróttinni. Ályktunin var samþykkt samhljóða, en félög á borð við Barcelona, Kiel og Flensburg eiga fulltrúa í stjórn þessara hagsmunasamtaka sem félög í Evrópu tóku sig saman um að stofna. Fulltrúi Barcelona, Xavier O'Callaghan, fer með stjórnarformennskuna.

Eins og fram hefur komið tók Aron ekki þátt í fyrstu æfingu Veszprém að loknu sumarfríi og mun samkvæmt Veszprém hafa komið þeim skilaboðum áleiðis að hann hefði ekki áhuga á að spila með liðinu á næsta keppnistímabili. Vitað er af áhuga Barcelona á að næla í Aron, sem á ár eftir að samningi sínum við Veszprém. Barcelona getur því fengið Aron á næsta ári án þess að greiða ungverska félaginu. Ungverjarnir vildu hins vegar nýta Aron á næsta tímabili og settu á hann háan verðmiða samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Svíinn Ljubomir Vranjes er tekinn við þjálfun ungverska liðsins og lýsti því yfir að hann hefði ekki áhuga á að tefla Aroni fram í vetur, þar sem hann hefði sýnt samherjum sínum lítilsvirðingu. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert