Arftaki Arons kemur ekki fyrr til Vészprem

Óljóst er hvernig veturinn verður hjá Aroni Pálmarssyni.
Óljóst er hvernig veturinn verður hjá Aroni Pálmarssyni.

Ljubomir Vranjes, hinn sænski þjálfari handboltaliðs Veszprém í Ungverjalandi, segir fyrstu daga sína í starfi hafa verið nokkuð stormasama vegna hátternis Arons Pálmarssonar.

Sem kunnugt er mætti Aron ekki á fyrstu æfingu liðsins eftir sumarfrí og lét Vranjes í kjölfarið hafa eftir sér að hann vildi ekki nýta krafta íslenska landsliðsmannsins í vetur. Í viðtali á heimasíðu Veszprém í gær tjáði hann sig frekar um málið:

„Það var orðrómur um að hann vildi fara til Barcelona en ég tók það ekki of alvarlega. Aron hefur ekki enn unnið Meistaradeildina með Veszprém. Hann er vissulega einstakur leikmaður en fyrir mér er liðið mikilvægara en ein stjarna. Núna er ég með margar stjörnur í liðinu og liðið er mikilvægara en einn stjörnuleikmaður,“ sagði Vranjes.

Svíinn kvaðst annars ánægður með undirbúning ungverska liðsins fyrir tímabilið. Veszprém leikur í Sparkassen-bikarnum í dag en Aron hefur ekki æft með liðinu og ljóst að hann verður ekki með í þeim leikjum.

Í viðtali við Veszprém TV var Vranjes spurður hvort félagið myndi fá Frakkann Kentin Mahé, sem sagður er arftaki Arons, frá Flensburg fyrir tímabilið en svaraði því skýrt neitandi. Mahé mun hins vegar koma til Veszprém næsta sumar en þá á samningur Arons að renna út. sindris@mbl.is