Lausn virðist ekki í sjónmáli

Aron Pálmarsson í leik með Veszprém.
Aron Pálmarsson í leik með Veszprém. Ljósmynd/Melczer Zsolt

Eftir því sem næst verður komist situr allt fast í deilu Arons Pálmarssonar og ungverska handknattleiksliðsins Veszprém. Aron ákvað fyrr í sumar að mæta ekki til æfinga hjá liði félagsins eftir sumarleyfi en hann á ár eftir að þriggja ára samningi sínum. Í framhaldinu brugðu forráðamenn Veszprém á það ráð að setja Aron í æfingabann hjá liði félagsins.

Aron gerði sér í vor góðar vonir um að ganga til liðs við spænska meistaraliðið Barcelona í sumar. Óyndi virtist þá hafa gripið Aron með veruna í Ungverjalandi þrátt fyrir að hafa leikið stórt hlutverk hjá liðinu. Þegar til átti að taka var ekki brennandi áhugi fyrir hendi hjá forráðamönnum Veszprém að missa Íslendinginn úr herbúðum sínum. Kannski skiljanlega þar sem Aron var eitt helsta tromp hins feykisterka liðs sem hefur m.a. komist í undanúrslit Meistaradeild Evrópu undangengin þrjú ár.

Ungverska liðið vildi fá allt að eina og hálfa milljón evra, um 190 milljónir króna, fyrir Aron. Sú upphæð var víðsfjarri hugmyndum forráðamanna Barcelona fyrir leikmann sem þá bráðvantaði ekki. Frekari viðræður félaganna um lægra verð skiluðu ekki árangri og hafa legið niðri um nokkurt skeið samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Hálf önnur milljón evra er um 10-15% af veltu handknattleiksliðs Barcelona á komandi keppnistímabili.

Í gær var opin æfinga hjá Veszprém með stuðningsmönnum og fjölmiðlum. Slík æfing er haldin árlega. Þar hefur mál Arons vafalaust borið á góma.

Nánar er fjallað um stöðu Arons í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.