Afturelding meistari meistaranna

Afturelding er meistari meistaranna.
Afturelding er meistari meistaranna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Afturelding hrósaði sigri í meistarakeppni HSÍ í handknattleik karla í kvöld þegar liðið vann Íslands- og bikarmeistara síðasta keppnistímabils, Val, 24:21, í viðureign í Valshöllinni í kvöld. Staðan var jöfn í hálfleik, 12:12. 

Í meistarakeppninni mætast Íslands- og bikarmeistarar síðasta árs en þar sem Valsmenn eru handhafar beggja titla mæta þeir Aftureldingu sem vann til silfurverðlauna í bikarkeppninni á síðustu leiktíð.

Afturelding byrjaði leikinn af krafti og var með fimm marka forskot að loknum fyrsta stundarfjórðungnum eða þar um bil, 8:3. Vængbrotið lið Vals hresstist þegar á leið og jafnaði metin fyrir hálfleik.

Framan af síðari hálfleik var leikurinn jafn en Mosfellingar voru sterkari síðasta stundarfjórðunginn og náðu þeir mest fjögurra marka forskoti um skeið.

Ernir Hrafn Arnarson sækir að vörn Vals að Hlíðarenda í ...
Ernir Hrafn Arnarson sækir að vörn Vals að Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Talsverðar breytingar hafa orðið á báðum liðum frá síðasta tímabili. Mosfellingar virtust vera því sem næst með sitt sterkasta lið en talsverð forföll voru hjá Val vegna meiðsla auk þess sem annar þjálfari liðsins, Snorri Steinn Guðjónsson, lét nægja að stýra liðinu en tók að öðru leyti ekki þátt þótt hann væri skráður sem leikmaður á skýrslu. Valsmenn hleyptu nokkrum ungum leikmönnum að.

Hvorugt liðið verður dæmt af þessu leik en þó verður að segja að miðað við hversu snemma þessi leikur fór fram voru gæði hans með ágætasta móti.

Mosfellingar eiga leik við Bækkelaget frá Noregi í EHF-keppninni á heimavelli um næstu helgi. Valsmenn eiga hins vegar ekki leik aftur fyrr en aðra helgi þegar þeir leika tvo Evrópuleiki á heimavelli.

Anton Rúnarsson var markahæstur hjá Val með fimm mörk. Magnús Óli Magnússon og Vignir Stefánsson voru næstir með fjögur mörk hvor. Ernir Hrafn Arnarson var markahæstur í liði Aftureldingar með sex mörk, Mikk Pinnonen, Einar Ingi Hrafnsson og Gunnar Kristinn Þórsson skoruðu fjórum sinnum hver.

Valur 21:24 Afturelding opna loka
60. mín. Leik lokið - verðskuldaður sigur Aftureldingar sem fær fyrsta bikar nýs keppnistímabils í handboltanum.
mbl.is