Tvö eða þrjú lið með betri leikmannahóp

Það var hart tekist á í Safamýri í kvöld.
Það var hart tekist á í Safamýri í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Íslandsmeistarar Fram gerðu 24:24 jafntefli gegn Gróttu í fyrstu umferð úrvalsdeildar kvenna í handbolta, Olís-deildinni, í Framhöllinni í kvöld. Stefán Arnarson, þjálfari liðsins, var ekki ánægður með færanýtinguna í fyrri hálfleik.

„Við hefðum getað náð meiri forystu í fyrri hálfleik, förum illa með einhver 12 dauðafæri og áttum að vera með betri stöðu í hálfleik.“

„Síðan í seinni hálfleik er Grótta bara miklu betri, kemst fimm mörkum yfir og svo bjargar Guðrún stigi fyrir okkur,“ en Guðrún Ósk Maríasdóttir varði vítakast frá Lovísu Thompson þegar þrjár sekúndur voru til leiksloka.

Fram hóf síðari hálfleikinn brösuglega og tókst meðal annars ekki að skora á fyrstu sex mínútum hans, hvað fór úrskeiðis?

„Ég hef enga skýringu á því, við komum hálf sofandi inn í seinni hálfleikinn og Grótta átti sigurinn skilið í dag. Ég er aldrei sáttur með stigið en eins og leikurinn þróaðist þá verðum við að þiggja það.“

Stefán var þó á því að færanýting liðsins hafi verið helsta vandamál kvöldsins.

„Þessi færanýting, þetta voru allt dauðafæri og Selma var auðvitað að verja vel en það er ekki gott að klikka á svona mörgum færum.“

Karen Knútsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins, sleit hásin í leik Fram og Stjörnunnar í Meistarakeppni HSÍ á dögunum, hversu lengi verður hún frá?

„Það er vonlaust að segja, það getur verið í febrúar, mars þegar mótið er langt liðið þannig að við getum ekkert verið að hugsa um hana.“

Að lokum var Stefán ósammála því að Fram væri með sterkasta hóp deildarinnar, en liðinu var spáð deildarmeistaratitlinum í árlegri spá þjálfara, fyrirliða og forráðamanna Olísdeildarinnar á dögunum.

„Ég er ósammála því, mér finnst allavega tvö eða þrjú lið vera með betri leikmannahóp en Fram,“ sagði Stefán að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert