Allir verða að gera betur

Alfreð Gíslason þjálfari Kiel.
Alfreð Gíslason þjálfari Kiel. Ljósmynd/thw-handball.de

„Menn verða að leggja harðar að sér. Allt liðið verður að gera enn betur en það hefur gert fram til þessa á keppnistímabilinu,“ segir Thorsten Storm, framkvæmdastjóri þýska handknattleiksliðsins THW Kiel, sem Alfreð Gíslason hefur þjálfað frá árinu 2008 með framúrskarandi árangri.

Tveir tapleikir Kiel í röð í fyrstu fjórum umferðum þýsku 1. deildarinnar hafa vakið athygli enda liðið ekki þekkt fyrir að tapa mörgum leikjum á hverju keppnistímabili. Síðast tapaði Kiel fyrir Melsungen á útivelli á sunnudaginn.

„Hvorki liðið né þjálfarinn gerðu tæknileg mistök í leiknum við Melsungen,“ er haft eftir Storm á handball-planet. „Menn verða einfaldlega að leggja harðar að sér, jafnt í vörn sem sókn. Flóknara er það ekki,“ sagði Storm ennfremur.

Lærisveinar Alfreðs verða í eldlínunni á morgun en þá taka þeir á móti Leipzig í deildinni.