Geggjuð liðsheild skilaði sigrinum

Perla Ruth Albertsdóttir.
Perla Ruth Albertsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Það var fyrst og fremst geggjuð liðsheild sem skilaði sigrinum,“ sagði Perla Ruth Albertsdóttir, markahæsti leikmaður handknattleiksliðs Selfoss í sigurleiknum á Stjörnunni, 32:31, í fystu umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik á Selfossi í fyrrakvöld.

Sigur Selfossliðsins kom mörgum í opna skjöldu vegna þess að fyrirfram var reiknað með að liðin yrðu að berjast hvort á sínum enda stigatöflunnar; Selfoss í neðri hlutanum en ríkjandi deildar- og bikarmeistarar Stjörnunnar í efri hlutanum enda með umtalsvert sterkara lið á pappírunum góðu.

„Við erum með fullt af ungum og efnilegum stelpum í liðinu. Æfingar hafa gengið frábærlega í allt sumar. Þegar á hólminn var komið lögðu allir leikmenn sig fullkomlega fram. Liðsandinn og liðsheildin skiluðu þessum sigri,“ sagði Perla Rut í gær en hún skoraði 10 mörk í leiknum og reyndist Stjörnuliðinu afar erfið. Rífandi góð stemning var á leiknum í íþróttasal Vallaskóla meðal á fjórða hundrað áhorfenda.

Perla Rut leikur á línunni en skorar einnig mikið eftir hraðaupphlaup.

„Stelpunum gekk vel að finna mig á línunni auk þess sem ég skoraði nokkur mörk eftir hraðaupphlaup. Þetta var flottur leikur hjá okkur,“ sagði Perla Rut og bætti við að leikurinn hefði verið afar jafn svo vart hefði mátt á milli sjá.

„Leikurinn var jafn frá upphafi til enda. Liðin skiptust á að vera með eins marks forskot. Yfirleitt var munurinn aldrei meiri en eitt mark eins og niðurstaðan varð.“

Sjá allt viðtalið við Perlu Ruth í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag