Stemmningin fór, hraðaupphlaup í bakið og hausinn niður

Maria Pereira skorar eitt af 8 mörkum sínum gegn Stjörnunni ...
Maria Pereira skorar eitt af 8 mörkum sínum gegn Stjörnunni í kvöld. mbl.is/Golli

„Ég er frekar fúl,“ sagði Elín Jóna Þorsteinsdóttir, markvörður Hauka, eftir 25:21 tap fyrir Stjörnunni í Hafnarfirði í kvöld þegar leikið var í 3. umferð efstu deildar kvenna í handbolta, Olís-deildinni.   

„Mér fannst stemmningin detta niður hjá okkur,  eins og við hefðum ekki gaman af því og vildum ekki vera hérna en um leið og það gerist þá hættum við í sókninni, fá þá hraðaupphlaup í bakið og þá fer hausinn alltaf neðar og neðar í stað þess að halda áfram.“

Elín Jóna varði nokkrum sinnum auðveldlega frá Ramune Pekarskyte, fyrrverandi leikmanni Hauka, en kom litlum vörnum við þegar hún fékk óhindruð skot fyrir framan markið. „Ég reyndi að verja en það er ekki þægilegt að sjá Ramune stökkva upp með allt markið fyrir framan sig en við vitum að við eigum að fara út á móti henni þar sem hún skýtur alls staðar á markið.   Við getum miklu betur og verðum bara að sýna það með aðeins meiri kraft og stemmningu, þá kemur þetta,“ sagði Elín Jóna. 

mbl.is