Annar sigur Selfyssinga í röð

Atli Ævar Ingólfsson mætir með Selfyssingum í Safamýrina í kvöld.
Atli Ævar Ingólfsson mætir með Selfyssingum í Safamýrina í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Selfoss vann sinn annan sigur í röð í Olísdeild karla er liðið lagði Fram í Safamýri 35:33 í 3. umferðinni í kvöld. Með sigrinum fór Selfoss upp í fjögur stig en Fram er enn aðeins með eitt stig og án sigurs.

Leikurinn var gríðarlega jafn framan af og var jafnt á öllum tölum fram að stöðunni 10:10. Fimm mörk Selfyssinga í röð varð hins vegar til þess að gestirnir voru með 18:15-forystu í hálfleik. Sóknarleikur beggja liða var mun betri en varnarleikurinn og virtust skyttur beggja liða geta stokkið upp þegar þeim sýndist og skorað auðveld mörk. Markvarsla beggja liða var með minnsta móti en markmönnunum til varnar var vörnin fyrir framan þá oft á tíðum arfaslök.

Framarar byrjuðu seinni hálfleikinn vel og minnkuðu fljótlega muninn í 19:18. Þá skoruðu Selfyssingar hins vegar sex mörk í röð og breyttu stöðunni í 25:18. Framarar neituðu hins vegar að gefast upp og tókst þeim að minnka muninn í 32:31 þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Þá tóku Selfyssingar leikhlé en Fram jafnaði skömmu síðar í 32:32. Eftir spennandi lokamínútur voru það gestirnir sem unnu nauman sigur.

Teitur Örn Einarsson átti stórleik hjá Selfossi og skoraði 11 mörk. Hjá Fram var Sigurður Örn Þorsteinsson með 8.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is. 

Fram 33:35 Selfoss opna loka
60. mín. Leik lokið Eftir spennandi lokamínútur eru það Selfyssingar sem taka stigin tvö.
mbl.is