Klofningur í handboltanum eftir brotthvarf Heimis

Sigurður Þrastarson og Heimir Örn Árnason.
Sigurður Þrastarson og Heimir Örn Árnason. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Heimir Örn Árnason, sem valinn var annar besti handknattleiksdómari Íslandsmótsins í fyrra, hefur tekið sér frí frá dómgæslu vegna ósættis innan dómarastéttarinnar. Samkvæmt heimildum mbl.is er handknattleikshreyfingin klofin vegna málsins.

Heimir Örn spilar með KA í 1. deildinni, Grill 66-deildinni, og dæmir einnig í efstu deild karla og kvenna. Guðjón L. Sigurðsson, formaður dómaranefndar HSÍ, staðfesti við mbl.is í morgun að ályktun hafi verið send til stjórnar HSÍ frá Handknattleiksdómarasambandi Íslands, HDSÍ, þar sem greint var frá ósætti.

Samkvæmt heimildum mbl.is tók hópur dómara sig saman og óskaði eftir því að dæma ekki leiki hjá KA á meðan Heimir er bæði að spila með liðinu og dæma í efstu deild. Taka átti ályktunina fyrir í hádeginu í dag en ákvörðun Heimis í gær sparaði stjórn HSÍ það að taka frekar á málinu.

„Við höfum viðmið þar sem segir að ef menn treysta sér ekki til að dæma leiki hjá vinum eða öðrum einstaklingum sem þeim þykir óþægilegt, þá geti þeir látið okkur vita og við tökum tillit til þess. Það voru nokkrir sem bentu á þá klausu og treystu sér ekki að dæma leiki hjá KA,“ sagði Guðjón við mbl.is.

Þegar málið er skoðað heldur sú ástæða hins vegar ekki vatni. Heimir var í nákvæmlega sömu sporum í fyrra þegar hann spilaði með Hömrunum í 1. deildinni og dæmdi á meðal þeirra bestu. Samkvæmt heimildum mbl.is er mikið ósætti um málið og að menn skiptist í tvær fylkingar í handknattleikshreyfingunni

Guðjón L. Sigurðsson, formaður dómaranefndar HSÍ.
Guðjón L. Sigurðsson, formaður dómaranefndar HSÍ. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ég nennti ekki að standa í þessu“

Heimir Örn sagði við mbl.is í morgun að hann hafi heyrt af ósætti innan dómarastéttarinnar í sinn garð, en vildi annars ekki gera mikið úr málinu. Hann hafi sjálfur tekið ákvörðunina að stíga til hliðar.

„Ég held að þetta hefði alltaf verið leyst en ég nennti eiginlega ekki að standa í þessu. Það voru einhver lið að kvarta líka, sem mér fannst pínu sorglegt. Ég skildi aldrei þessa umræðu til að byrja með, enda hef ég verið að gera þetta í mörg ár. Það eru fullt af mönnum að dæma og spila, kannski ekki að dæma í fremstu röð. Svo það var einhver ástæða að þetta hafi komið upp núna,“ sagði Heimir.

En hvaða ástæðu telur hann vera þar að baki?

Hagsmunaárekstur sem stenst ekki

„Ég veit það ekki, kannski af því að við vorum orðnir svo framarlega í dómgæslunni og vöktum mikla athygli í fyrra,“ sagði Heimir. Hann var valinn dómari ársins í fyrra ásamt félaga sínum Sigurði Þrastarsyni. Heimir segir skiljanlegt að félagi sinn sé svekktur vegna málsins.

Heimir Örn dæmdi sinn fyrsta leik í efstu deild fyrir tæpum tveimur árum og því hefur uppgangur hans í dómgæslunni verið hraður. Voru aðrir dómarar því farnir að líta á Heimi sem ógn?

„Ég veit það ekki. Ég hef verið að dæma mikið hjá þessum bestu liðum og U-liðin eru tengd þeim svo mönnum fannst þetta eitthvað skrítið. Ég bara nennti ekki neinu veseni og tók þessa ákvörðun,“ sagði Heimir, en mörg úrvalsdeildarlið tefla fram svokölluðum ungmennaliðum í 1. deild.

Þar vilja menn meina að komi fram hagsmunaárekstur, en eins og áður kom fram þá var ekkert sagt þegar Heimir spilaði með Hömrunum í fyrra.

Heimir Örn Árnason var valinn dómari ársins í fyrra ásamt ...
Heimir Örn Árnason var valinn dómari ársins í fyrra ásamt félaga sínum Sigurði Þrastarsyni. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Óvíst hvort hann snýr aftur

Heimir talar um vesen – var orðið mikið vesen innan dómarastéttarinnar vegna málsins?

„Já það var það, en það átti eftir að taka ákvörðun um þetta sem þarf þá ekki að gera núna. Ég bjargaði meira veseni. Það er allt svo jákvætt í kringum handboltann þessa stundina. Er þá ekki bara fínt að stíga til hliðar og leyfa þessu að vera áfram jákvætt? Mér líkar svo vel við handboltann og vil ekki vera að gera eitthvað vesen. Ef fólki líður betur með þetta þá er það bara flott,“ sagði Heimir.

Hann vildi ekki taka svo djúpt í árinni að segja að verið sé að bola honum út. Hvað framhaldið varðar veit Heimir ekki hvort hann muni snúa aftur í dómgæslu þegar hann hættir að spila. Það muni bara koma í ljós.

mbl.is