„Eldskírn fyrir ungu stelpurnar“

Ragnheiður Júlíusdóttir sækir að vörn Selfyssinga.
Ragnheiður Júlíusdóttir sækir að vörn Selfyssinga. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var frekar erfitt. Við vorum ekki með okkar sterkasta lið og þessar yngri fengu sénsinn. Fram er bara sterkara lið en við í dag,“ sagði Örn Þrastarson, annar þjálfara Selfoss, eftir stórt tap á heimavelli í Olís-deild kvenna í kvöld.

Fram hafði mikla yfirburði í leiknum og sigraði 34:23. Miklu munaði um að Perla Albertsdóttir og Kristrún Steinþórsdóttir tóku nánast engan þátt í leiknum. 

„Perla er búin að liggja veik í þrjá daga og Kristrún fékk aðeins í hnéð og þurfti að hvíla. Þær verða tilbúnar í næsta leik. Við ætluðum að reyna að hlaupa með Framliðinu og við gátum það í tuttugu mínútur en svo skildu leiðir. Það var samt margt gott í þessu í dag og leikurinn var eldskírn fyrir ungu stelpurnar okkar,“ bætti Örn við.

„Meðalaldurinn var kannski sextán ár hjá okkur í kvöld... nei, ég veit það ekki. Síðustu fimmtán mínúturnar erum við með fjórar sextán ára stelpur inná og eina sautján ára. Þetta er kannski stór biti fyrir þær að þurfa að spila við Fram, en þær græða bara á því,“ sagði Örn að lokum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert