„Fékk hjartastopp í smá tíma“

Lovísa Thompson varð fyrir meiðslum í upphafi leiks.
Lovísa Thompson varð fyrir meiðslum í upphafi leiks. mbl.is/Golli

Grótta fór í einhverja mestu fýluferð sem sögur fara af, til Vestmannaeyja í dag, en liðið tapaði með 15 marka mun gegn ÍBV. Leiknum lauk 32:17 eftir að staðan var 18:11 í fyrri hálfleik. Pínlegt var að horfa á Gróttuliðið í síðari hálfleik en þær gátu varla keypt sér mark á löngum köflum. Vörn ÍBV var öflug en sóknarleikur gestanna var vonlaus.

Alfreð Örn Finnsson, þjálfari Gróttu, var að vonum ósáttur eftir leikinn og sagðist ekki hafa þekkt til leikmanna inni á vellinum í þessum ham.

„Það er ágætis orð yfir þetta,“ sagði Alfreð þegar hann var spurður út í það hvort að þetta hafi ekki verið hræðilegt hjá hans liði í dag.

Hvað var það helst sem klikkaði, var það allt sem klikkaði?

„Ég þekkti ekki liðið mitt í kvöld, ekki eins og við erum búnar að vera í haust með góðri baráttu. Við vorum engan veginn tilbúnar og ég held að það hafi allir séð það í húsinu.“

Grótta gerði eflaust á milli 30 og 40 tæknifeila í leiknum og var pínlegt að horfa á sóknarleik liðsins, þá sérstaklega í síðari hálfleik.

„Það var alltof, alltof mikið, ég hafði ekki skýringar á því. Þetta var aragrúi af sendingarfeilum, við komum boltanum varla frá markmanni á miðju. Þú átt ekki „breik“ í svona gott lið með svona, fyrir utan það finnst mér það andlega ekki vera til staðar. Auðvitað er útlendingurinn að spila sinn fyrsta leik í deildinni, hún er búin að vera í pásu, það sást alveg greinilega. Lovísa dettur út mjög snemma í leiknum, það var ekki til þess að hjálpa okkur fyrir utan svona hnjask inn á milli. Þetta var engan veginn okkur samboðið. Mér finnst leiðinlegast að koma á þennan skemmtilega heimavöll Eyjamanna fyrir fullu húsi og ná ekki að veita þeim neina mótspyrnu.“

„Við erum búnar að vera að vinna okkur frá grunni, mér fannst þær hamra járnið mjög vel. Þær hittu rosalega vel í upphafi og komu sér mjög fljótlega í þægilega stöðu, við vorum í sjálfu sér klaufar að vera ekki með aðeins meiri leik í hálfleik. Í seinni hálfleik þá fjaraði undan þessu og þetta var orðin einhver vitleysa á tímabili.“

Lovísa Thompson meiddist í upphafi leiks og það fór um fólk í stúkunni, sem óttuðust það versta. Hvernig horfði það við Alfreð og veit hann hversu alvarleg meiðslin eru?

„Nei ég get ekki svarað því, vonandi er þetta bara snúinn ökkli. Ég fékk hjartastopp þarna í smá tíma,“ sagði Alfreð að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert