Valur vann ÍR í háspennuleik

Magnús Óli Magnússon er hér tekinn föstum tökum í leik …
Magnús Óli Magnússon er hér tekinn föstum tökum í leik Vals og ÍR í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Valur vann 24:23-sigur á ÍR í háspennuleik í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Úrlitin réðust þegar örfáar sekúndur voru eftir. 

ÍR-ingar byrjuðu mjög vel og komust í 5:1. Vörnin þeirra stóð mjög vel og sóknarleikurinn var til fyrirmyndar. Valsmenn tóku þá leikhlé og jöfnuðu fljótlega í 5:5 eftir það. ÍR-ingar tóku hins vegar aftur frumkvæðið og voru 2-3 mörkum yfir til loka hálfleiksins. Staðan í hálfleik var 14:12, ÍR í vil. Sveinn Andri Sveinsson fékk að líta rauða spjaldið seint í seinni hálfleik og hafði það áhrif á sóknarleik ÍR.

ÍR-ingar héldu hins vegar í við Valsmenn og rúmlega það framan af seinni hálfleik og var staðan 19:16, ÍR í vil eftir tíu mínútur í síðari hálfleik. Valsmenn náðu hins vegar að minnka muninn og var staðan 20:19 fyrir ÍR þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Anton Rúnarsson skoraði af vítalínunni í næstu sókn og jafnaði í 20:20 og var það í fyrsta skipti í seinni hálfleik sem staðan var jöfn.

Valur komst yfir í fyrsta skipti í leiknum þegar sjö mínútur voru til leiksloka, 22:21. ÍR neitaði hins vegar að gefast upp og var staðan 23:23 þegar hálf mínúta var til leiksloka og ÍR lagði af stað í sókn. Bergvin Þór Gíslason fann glufu á vörn Vals, fór í gegn en skotið hans fór í stöngina. Valsmenn tóku leikhlé um leið og höfðu 13 sekúndur til að tryggja sér sigur. Segja má að Valsmenn hafi gert það með stæl, því Anton Rúnarsson skoraði sirkusmark í þann mund sem leiktíminn rann út og Valsmenn eru enn með fullt hús stiga. 

Valur 24:23 ÍR opna loka
60. mín. Valur tapar boltanum Magnús kastar boltanum beint út af. ÍR hefur 50 sekúndur til að gera eitthvað núna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert