Ýmir dettur á hnakkann og eitthvað

Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR.
Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum drullusvekktir með að hafa tapað," sagði hundsvekktur Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, eftir grátlegt 24:23-tap gegn Val í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. ÍR var stóran hluta leiks en Valur tryggði sér sigur með marki í síðustu sókninni. 

„Við gerum slæma feila, við erum með slæma tapaða bolta og slæm varnarmistök sem við eigum ekki að láta sjást í okkar leik."

„Ég er mjög ánægður með leikinn. Ég er ánægður með framlagið hjá strákunum en við verðum að útrýma þessum feilum, við getum ekki boðið upp á það. Allir sem spiluðu stóðu sig vel og það var flott."

Sveinn Andri Sveinsson fékk að líta beint rautt spjald í fyrri hálfleik. Bjarni var ekki ánægður með að Orri Freyr Gíslason hafi ekki fengið rautt spjald fyrir atvik stuttu áður. Fannst Bjarna rauða spjaldið á Svein vera réttur dómur? 

„Ég veit það ekki, Ýmir dettur á hnakkann og eitthvað. Ég ætla að sjá til með það. Í ljósi atriða sem voru búin að koma áður fannst mér það dýrt. Ég á eftir að skoða það [brotið hjá Orra] aðeins betur, en mér fannst það vera rautt. Þetta var stór dómur á Svein."

ÍR hefur farið nokkuð vel af stað í deildinni en Bjarni vill sjá enn meira frá sínu liði. 

„Ég er ekki sáttur með að hafa tapað þessum leik. Þetta var leikur sem við vorum með. Ég var ekki sáttur við að tapa á móti Haukum heldur, þá vorum við langt undir okkar. Ég vil sjá okkur klára þessa stóru leiki," sagði Bjarni að endingu. 

mbl.is