Pirrandi að vita ekkert

Guðmundur Hólmar Helgason í landsleik.
Guðmundur Hólmar Helgason í landsleik. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er ekki hægt að neita því að þetta er ótrúlega svekkjandi,“ segir Guðmundur Hólmar Helgason, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Cesson-Rennes í Frakklandi, en hann verður frá í óákveðinn tíma eftir að hafa greinst með brjósklos í baki. Guðmundur var nýbúinn að jafna sig á alvarlegum meiðslum sem héldu honum frá keppni í hálft ár.

Guðmundur Hólmar sleit tvö liðbönd í ökkla eftir að hafa misstigið sig á æfingu í febrúar, en hann var búinn að koma við sögu í fyrstu leikjum Cesson-Rennes á nýju tímabili. Hann hafði fundið til í bakinu af og til áður en verkirnir fóru að ágerast síðustu vikurnar, en þá var hann sendur í myndatöku þar sem hið sanna kom í ljós.

„2017 fer í bækurnar sem erfitt ár, ég lýg því ekki. Brjósklosið klemmir taug sem leiðir til verkjar niður í fót, svo ég má ekki byrja að vinna með sjúkraþjálfara fyrr en bólgur og annað í kring hefur hjaðnað. Svo nú er ég bara í hvíld og að bíða. Ég er ekkert að æfa og ekkert í sjúkraþjálfun heldur fer bara í gönguferðir,“ segir Guðmundur Hólmar.

Það er mjög persónubundið hversu langan tíma tekur að jafna sig á brjósklosi og því ekki hægt að segja fyrir víst hvenær Guðmundur getur snúið aftur á völlinn. Hann fer aftur í myndatöku eftir nokkrar vikur þar sem staðan verður metin á ný.

„Það er pirrandi að vita ekkert, þetta gætu verið vikur og gætu verið mánuðir. Það er engin útrás heldur til þess að vinna í einhverju öðru. Gönguferðirnar verða bara að duga. Það er skrítið að geta ekki gert neitt. Þegar ég lenti í hinum meiðslunum og var í gifsi gat ég strax farið að gera eitthvað og vinna í öðrum þáttum. En núna er ekkert hægt að gera nema bíða.“

Nánar er rætt við Guðmund Hólmar í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.