Þurfum að fjölga góðu köflunum

Þóra Guðný Arnarsdóttir skoraði fimm mörk í kvöld.
Þóra Guðný Arnarsdóttir skoraði fimm mörk í kvöld. Kristinn Magnússon

„Það voru að sjálfsögðu kostir og gallar í okkar leik,” sagði Þóra Guðný Arnarsdóttir, en hún skoraði fimm mörk fyrir Gróttu þegar liðið tók á móti Stjörnunni í kvöld. Stjarnan vann öruggan sigur, 25:35, en Slavica Mrkikj var markahæst hjá Gróttu með sjö mörk.

„Á köflum vorum við góðar og á köflum vorum við lélegar og við þurfum að fjölga góðu köflunum og halda þá út. Við þurfum fyrst og fremst að hugsa um okkur sjálfar, þetta snýst um það. Við þurfum að taka eitt skref í einu og passa okkur að taka ekki skref aftur á bak.

„Þær náðu að loka mjög vel inn á miðjuna hjá okkur, en á meðan við fáum mörk úr horninu þá er það auðvitað gott, en við erum með mjög góða hornamenn,” sagði Þóra Guðný, en Emma Havin Sardarsdóttir var með fjögur mörk úr horninu.

Lovísa Thompson er lykilmaður í liði Gróttu, en hún var ekki með í kvöld eftir að hún meiddist í síðasta leik. Truflaði það liðið mikið að hún var ekki með?

„Við vorum ekki mikið að pæla í því enda vissum við það svo sem fyrirfram þar sem þetta leit ekki vel út eftir síðasta leik. Við hugsuðum fyrst og fremst um okkar leik en auðvitað er hún stór hluti af liðinu og skiptir miklu máli“

Mbl.is ræddi við Lovísu að leik loknum, hvað kom fyrir?

„Í leiknum á móti ÍBV stökk ég upp í skoti og lenti illa og sneri ökklann á mér þegar ég lenti á hælnum á varnarmanni,” sagði Lovísa en hún segir tognunina vera nokkuð slæma og veit ekki hvenær hún mun vera með á ný.

Lovísa vonast til að geta verið með í næsta leik Gróttu gegn Fjölni á sunnudag, en óvíst er hvort það takist. Hún segist þó finna mun á hverjum degi.

„Við byrjuðum vel og ég var mjög ánægð með að sjá baráttuna hjá stelpunum en svo sprungu þær bara,” sagði Lovísa um leik Gróttu í kvöld.

mbl.is