„Ekki að búa til neina brandara“

Arnar Freyr Ársælsson reynir að stöðva leikmann St.Pétursborgar í síðari ...
Arnar Freyr Ársælsson reynir að stöðva leikmann St.Pétursborgar í síðari leik liðanna í St.Pétursborg í síðasta mánuði. Ljósmynd/EHF

Fyrirhuguð vítakeppni rússneska liðsins St. Petersburg og FH í EHF-keppninni í handknattleik sem fram fer í St. Pétursborg á sunnudaginn hefur vakið heimsathygli á meðal handboltaáhugafólks en með henni verður skráður nýr kafli í sögu handboltans.

Dmitri Torgovanov er þjálfari rússneska liðsins en hann lék á árum áður á línunni með rússneska landsliðinu og gerði íslenska landsliðinu oftar en ekki lífið leitt. Hann segist vera búinn að ákveða hvaða leikmenn taki vítin fyrir sitt lið.

Dmitri Torgovanov þjálfari St.Pétursborg.
Dmitri Torgovanov þjálfari St.Pétursborg. Ljósmynd/EHF

„Ég er búinn að ákveða hverjir taka vítaköstin en ég vil ekki nefna nöfn þeirra. Við höfum ekkert æft okkur sérstaklega fyrir þessa vítakeppni. Við höfum ekki haft tíma til þess,“ segir Torgovanov á vef evrópska handknattleikssambandsins.

„Það er ekki spurning að þetta er mjög sérstakt, ekki bara fyrir mig heldur alla. Við erum ekkert að búa til neina brandara úr þessu. Það taka allir þetta alvarlega enda eigum við möguleika á að komast í næstu umferð. Það er bara happdrætti hvort liðið hefur betur,“ segir Torgovanov, sem varð ólympíumeistari með Rússum á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000 og vann til bronsverðlauna á leikunum í Aþenu 2004.

Vítakeppnin hefst klukkan níu á sunnudagsmorguninn að íslenskum tíma og hægt verður að fylgjast með henni í beinni útsendingu á vefnum ehftv.com eða á facebooksíðu EHF.

mbl.is