Stórleikur Arnórs og fullt hús stiga

Arnór Þór Gunnarsson.
Arnór Þór Gunnarsson. AFP

Arnór Þór Gunnarsson fór enn á ný mikinn með liði Bergischer þegar liðið vann 12. leikinn í röð í þýsku 2. deildinni í handknattleik í kvöld. Liðið er með fullt hús stiga á toppnum.

Í þetta sinn var sigurinn hins vegar afar tæpur á útivelli gegn Wilhelmshavener, en sigurmarkið kom fjórum sekúndum fyrir leikslok, 27:26. Arnór var markahæstur allra á vellinum með 9 mörk úr 13 skotum. Hann hefur skorað 99 mörk í deildinni til þessa og er sem stendur í öðru sæti yfir markahæstu menn.

Oddur Gretarsson var markahæstur hjá Balingen þegar liðið gerði jafntefli við Rimpar Wölfe á útivelli, 27:27. Oddur skoraði 4 mörk fyrir Balingen en Sigtryggur Daði Rúnarsson komst ekki á blað. Liðið er í þriðja sæti deildarinnar með 18 stig eftir 12 leiki.

Þá komst Fannar Friðgeirsson ekki á blað fyrir Hamm sem vann stórsigur á Hagen, 36:24. Hamm er í 6. sætinu með 16 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert