Líf mitt breyttist á svipstundu

Nora Mørk í leik með norska kvennalandsliðinu í handbolta.
Nora Mørk í leik með norska kvennalandsliðinu í handbolta. AFP

Norska landsliðskonan í handbolta, Nora Mørk, hefur gengið í gegnum afar erfiða tíma undanfarið. Sími Mørk var hakkaður síðastliðið haust og viðkvæmar persónulegar myndir af henni láku á netið. Karlmaður á þrítugsaldri er grunaður um verknaðinn, en málið er til rannsóknar hjá norsku lögreglunni. 

Mørk hefur verið að glíma við afleiðingar myndbirtingarinnar síðan í haust og íhugaði um tíma að hætta við þátttöku sína með norska liðinu á HM sem fram fer í Þýskalandi í næsta mánuði. Mørk sagði sögu sína í viðtali við norsku sjónvarpsstöðina TV2 í gærkvöldi.  

„Þetta var harkaleg árás á einkalíf mitt þar sem persónulegum og viðkvæmum myndum af mér var stolið úr síma mínu og deilt á veraldarvefnum. Þetta hafði að sjálfsögðu mikil áhrif á mig. Ég var fyrir þetta lífsglöð og hress, en þess i stað á ég erfitt með að horfa framan í daginn þessa stundina. Ég er staðráðin í að reyna að komast aftur í daglega rútínu,“ sagði Mørk í samtali við TV2.

Reynir að jafna sig á þessu mikla áfalli

„Mig langar að ná aftur stjórn á lífi mínu og það er ástæðan fyrir að ég tjái mig opinberlega um þetta hörmulega mál. Mig langar einnig að leggja mitt af mörkum til þess að aðstoða þá aðila sem hafa lent í svona aðstæðum. Ég er ekki viss um það að þeir sem fremja svona glæp átti sig á því hversu mikil áhrif þetta hefur á brotaþolann,“ sagði Mørk sem barðist við tilfinningar sínar meðan á viðtalinu stóð. 

Þórir Hergeirsson er þjálfari norska liðsins og Mørk sagði honum frá atvikinu fljótlega eftir að það gerðist. Mørk var í æfingabúðum með norska liðinu þegar hún fékk skilaboð um að myndirnar af henni hefðu lekið á vefinn. 

„Nora lenti í hræðilegri lífsreynslu og þetta hefur eðlilega tekið mikið á hana. Nora er mikils virt innan leikmannahóps okkar og við sem komum að liðinu stöndum þétt við bakið á henni. Við munum sýna stuðning og veita henni alla þá aðstoð sem okkur er mögulegt að veita henni. Ég held að það sé enginn staður betri fyrir hana en að vera við æfingar og keppni með okkur betri á þessum tímapunkti,“ sagði Þórir í samtali við TV2 um málefni Mørk. 

mbl.is