„Vorum mjög ólíkir okkur í kvöld“

Halldór Jóhann Sigfússon.
Halldór Jóhann Sigfússon. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við vorum virkilega lélegir sóknarlega í fyrri hálfleik,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, eftir 24:23 tap gegn Selfyssingum á útivelli í Olísdeild karla í handbolta í kvöld.

„Við fáum á okkur tólf mörk í fyrri hálfleik og getum alveg lifað með því miðað við hvað við erum að tapa mörgum boltum, en við skorum sjálfir bara sjö mörk, sem er mjög ólíkt okkur. Við erum að skora yfir þrjátíu mörk í hverjum einasta leik í vetur. Auðvitað geta svona hlutir gerst, en það eru þarna fimm eða sex hraðaupphlaup sem við klikkum á og við skjótum markmennina bara í stuð,“ sagði Halldór Jóhann í samtali við mbl.is eftir leik.

Hann segir að Selfyssingar hafi ekki komið sér á óvart í upphafi leiks.

„Nei, við áttum von á því að þeir myndu fara í þessa 3-2-1 eða 3-3 vörn og vera mjög „agressívir“. Við vorum búnir að fara yfir það en ég veit ekki alveg hvort menn koma værukærir inn í leikinn eða hvað það er. Það er ekkert flæði í leiknum hjá okkur og þeir ná að brjóta á okkur og við förum að taka slæmar ákvarðanir sem þeir svo nýta sér til fullnustu. Heilt yfir, þegar við náum að standa 6-0 vörn þá gerum við það vel en við erum samt sem áður að gera of mikið af einstaklingsmistökum einn á móti einum,“ bætti Halldór Jóhann við.

Selfoss náði mest sjö marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks en þá tóku FH-ingarnir við sér og jöfnuðu 20:20 þegar sex mínútur voru eftir.

„Seinni hálfleikurinn var miklu betri en eftir að við náðum að jafna gerum við einstaklingsmistök og tökum slæmar ákvarðanir og fáum mark í bakið. Á mörgum köflum í leiknum erum við að flýta okkur alveg rosalega og ég skil ekki alveg af hverju. Hlutir eins og yfirtala, við erum búnir að spila mjög vel í yfirtölu í allan vetur. Við vorum mjög ólíkir okkur í kvöld að mörgu leyti. Auðvitað getur þú alltaf átt slakan leik en það voru svolítið margir hjá okkur sem voru undir pari og við vorum að gera marga feila,“ sagði Halldór Jóhann að lokum.

mbl.is