Leikir Íslands á EM fluttir frá Split?

Geir Sveinsson stýrir íslenska landsliðinu á EM í janúar.
Geir Sveinsson stýrir íslenska landsliðinu á EM í janúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Talsverðar líkur eru taldar á að leikir íslenska landsliðsins, undir stjórn Geirs Sveinssonar, á Evrópumótinu í handknattleik karla í janúar fari ekki fram í Split heldur í Osijek.

Íþróttahöllin í Split er ekki tilbúin vegna þess að félagið sem reisti hana og átti varð gjaldþrota fyrir nokkru. Ekki hafa náðst samningar milli króatíska handknattleikssambandsins og þrotabúsins vegna kostnaðar við rekstur íþróttahallarinnar meðan á keppninni stendur og um betrumbætur á henni svo hægt verði að leika handknattleik þar. Ber talsvert á milli, ef marka má króatíska fjölmiðla. Höllin stendur auð og ófrágengin að hluta og hefur gert um skeið.

Króatíska handknattleikssambandið, sem heldur mótið, þarf að staðfesta í dag við Handknattleikssamband Evrópu, EHF, að leikstaðirnir séu tilbúnir. Fullvíst er að EHF þoli ekki frekari töf á málum í Split. Í Osijek er fyrsta flokks keppnishöll sem hýsti m.a. leiki á HM karla fyrir átta árum.

Allt mun vera klárt á hinum leikstöðunum þremur: Varazdin, Porec og Zagreb.