Dagur hélt eftirminnileg áramót með Japönum

Dagur Sigurðsson.
Dagur Sigurðsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur Sigurðsson, þjálfari japanska landsliðsins í handknattleik, mætir tveimur ólíkum íslenskum liðum í Laugardalshöllinni á morgun og á fimmtudag. Japan mætir íslenska landsliðinu á morgun og svo Afrekshópi HSÍ sem er skipaður leikmönnum sem spila í Olís-deildinni hér heima.

„Fyrri leikurinn verður brekka og við vitum það en seinni leikurinn verður líka erfiður. Ég held að það verði erfitt að vinna þessa leiki en við gerum okkar besta. Ég vona að við stöndum í lappirnar allan tímann og brotnum ekki eins og á móti Barein. Ég vona að við höfum lært af því,“ sagði Dagur við mbl.is í dag, en hann tapaði illa fyrir lærisveinum Guðmundar Guðmundssonar hjá Barein í vináttuleik á dögunum 37:22.

Dagur kom með japanska landsliðið hingað til lands fyrir áramót, en hvernig leist Japönunum á það hvernig Íslendingar haga sér á áramótunum?

„Bara ljómandi vel. Ég bauð þeim heim í sprengjurnar, það kom bara rúta með 27 manns og við fjölskyldan vorum með þeim að fagna áramótunum. Þetta var algjörlega nýtt. Þeir höfðu aldrei komist með puttana í þessar sprengjur, svo fórum við á brennuna í Laugardalnum. Þetta var mjög eftirminnilegt fyrir okkur og fyrir þá líka,“ sagði Dagur.

Guðmundur Þ. Guðmundsson og Dagur Sigurðsson.
Guðmundur Þ. Guðmundsson og Dagur Sigurðsson. mbl.is/Golli

Held að allt sé á góðri leið

Dagur er á leið á Asíumótið með japanska landsliðinu þar sem í boði eru sæti á HM. Þar verður Japan í riðli með Íran og Írak, en áður mun hann aftur mæta Guðmundi og liði Barein.

„Við fljúgum út 5. janúar [daginn eftir síðari leikinn við Ísland] til Tókýó, Barein kemur þangað og við spilum tvo leiki við Gumma 13. og 14. janúar. Svo förum við til Suður-Kóreu þar sem mótið fer fram,“ sagði Dagur en veit lítið við hverju á að búast í riðlinum gegn fyrrnefndum liðum.

„Það er erfitt að setja sig inn í þetta, ég þekki þessi lið ekki eins og ég þekki Evrópsku liðin. En ég held við séum á góðu róli,“ sagði Dagur og telur sig almennt vera á réttri leið með Japan.

„Þetta er orðið svolítið eins og ég stefndi að; blanda af því hvernig ég vil spila og svo hvernig þeir í rauninni spila. Ég vil ekki taka það frá þeim og vona bara að þetta þéttist smátt og smátt hjá okkur. Sumt þarf tíma, ungir leikmenn sem þurfa að spila sína 50 landsleiki áður en þetta verður komið klárt. Ég hef yngt svolítið hressilega upp í liðinu og ég held að það sé allt á góðri leið,“ sagði Dagur Sigurðsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert