Framtíð Geirs í óvissu – „Það er allt opið“

Geir Sveinsson.
Geir Sveinsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, veit ekki framtíð sína með liðið nú þegar aðeins nokkrir dagar eru í að Evrópumeistaramótið hefjist í Króatíu þar sem Ísland verður í eldlínunni.

Geir var í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem hann var spurður út í samningsstöðu sína við Handknattleikssamband Íslands, HSÍ. Þar sagðist hann hafa þurft að bíða eftir svari um sína framtíð í marga mánuði.

„Minn samningur er að renna út eftir þetta mót. Ég ræddi við þá síðasta sumar [um framlengingu], en var dreginn ansi lengi á svari eða á fimmta mánuð. Ég fékk þau skilaboð nú rétt fyrir mót að ekki stæði til að framlengja við mig að svo stöddu. Svo ég þarf að bíða fram yfir mót,“ sagði Geir í viðtalinu.

Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, staðfesti við mbl.is að viðræður hafi átt sér stað síðastliðið sumar en að ekki sé óvenjulegt að staðan sé metin eftir að stórmóti lýkur.

„Þetta kom til umræðu, en við mátum það þannig að ekki væri ástæða til að breyta samningnum. Það er í samræmi við okkar vinnulag að samningar renna út yfirleitt eftir mót þegar staðan er tekin og menn meta árangurinn. Það var engin ástæða til þess að breyta frá því verklagi nú, en það hefur ekkert með hann að gera.“

Engin óvænt óvissa komin upp

Mun framtíð Geirs með landsliðið því ráðast af gengi Íslands á EM?

„Framtíðin ræðst bara af heildarmyndinni og á hvaða vegferð við erum með framhaldið. Þetta hefur ekkert með hann að gera eins og ég segi heldur bara er okkar vinnulag,“ sagði Guðmundur.

Þegar hann var spurður nánar út í ummæli Geirs um að hafa beðið eftir svari í fimm mánuði neitaði Guðmundur því staðfastlega að það hafi verið vegna þess að annar þjálfari væri í sigti HSÍ.

„Nei ekkert svoleiðis, þannig vinnum við ekki. Við metum það bara svo að ekki hafi verið sérstök ástæða til þess að breyta samningnum, en það er allt opið í framhaldinu þegar staðan verður metin. Ég ítreka að það hefur ekkert með hann að gera og engin afstaða gagnvart honum að við höfum ekki viljað breyta stöðunni. Liðið er á rétti vegferð og við vonum að það haldi áfram,“ sagði Guðmundur.

Það er því ekki komin upp óvænt óvissa í herbúðum liðsins nú rétt fyrir Evrópumótið?

„Nei alls ekki. Við erum alveg samstíga í undirbúningnum fyrir þetta mót og allt hefur gengið vel,“ sagði Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert