Eitt og annað sem þarf að laga

Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, ásamt hlutaf leikmönnum og …
Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, ásamt hlutaf leikmönnum og starfsliði landsliðsins. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er alltaf slæmt að tapa. Við reyndum eitt og annað og höfum þegar upp er staðið um margt að hugsa og verðum að laga eitt og annað fyrir framhaldið,“ sagði Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla í samtali við mbl.is eftir sjö marka tap íslenska landsliðsins fyrir þýska landsliðinu í vináttulandsleik í Stuttgart í kvöld, 36:29.

„Við þurfum að leita lausna fyrir sunnudaginn fyrir síðari leikinn,“ sagði Geir ennfremur en liðin mætast öðru sinni í Ulm klukkan 13 á sunnudag. Það verður síðasti leikur íslenska landsliðsins fyrir átökin á Evrópumótinu í Króatíu sem hefjast eftir viku.

„Við náðum aldrei takti í vararleikinn okkar að þessu sinni. Skýrasta sönnun þess er að við fengum á okkur 36 mörk. Á því verðum við að ráða bót,“ sagði Geir sem reyndi bæði 6/0 vörn og 5/1. „Fimm einn vörnin skilaði ekki árangri í síðari hluta fyrri hálfleiks eftir að við breyttum til. Við unnum lítið af aukaköstum. Ég vonaði að breytingin myndi auk grimmdina en sú varð ekki raunin. Þjóðverjar áttu bara mjög góðan leika enda með afar öflugt lið sem er ríkjandi Evrópumeistari,“ sagði Geir.

Ýmislegt þarf einnig að bæta í sóknarleiknum þrátt fyrir að íslenska liðið hafi skoraði 29 mörk.

„Sóknarleikurinn var ágætur fyrstu 20 mínúturnar en um leið og Þjóðverjarnir hertu tökin þá gáfum við eftir og 13:4 kaflinn í síðari hluta fyrri hálfleiks fór með leikinn af okkar hálfu,“ sagði Geir og tók undir þá skoðun að lítið hafi komið út úr hægri vængnum í sóknarleiknum og greinilegt hafi verið að Rúnar Kárason og Ómar Ingi Magnússon eiga nokkuð í land eftir veikindi síðustu daga. „Þeir voru kraftlitlir og þar af leiðandi fengum við ekki það út úr þeim sem vonast hefði mátt eftir.

Geir sagði að ekki væri eingöngu hægt að skella skuldinni á þreytu en íslenska liðið lék við Japan í Laugardalshöll í fyrrakvöld og hélt síðan snemma í gærmorgun til Þýskalands. „Það er kannski einhver skýring en ég held að megin ástæðan sé önnur.“

„Við höfum kvöldið í kvöld og æfingu á morgun til þess að leita lausna og koma þeim á framfæri við strákana fyrir síðari viðureignina á sunnudaginn.  Það er ágætt að taka þetta út núna skömmu fyrir EM,“ sagði Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla í samtali við mbl.is í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert