„Eflaust má gagnrýna sambandið“

Guðmundur B. Ólafsson er formaður HSÍ.
Guðmundur B. Ólafsson er formaður HSÍ. mbl.is/Golli

Handboltasamband Íslands (HSÍ) hefur sent frá sér tilkynningu vegna umfjöllunar Stöðvar 2 í gær um fyrrverandi handboltakonu sem var áreitt kynferðislega af þjálfaranum sínum. Var hún óánægð með það hvernig tekið var á málinu innan sambandsins. 

Segir í tilkynningunni að ljóst sé að íþróttahreyfingin hafi sofið á verðinum í þessum málum og HSÍ sé þar ekki undanskilið. Ekki hafi verið til verkferlar eða reglur um hvernig ætti að taka svona kvörtunum og hvaða afleiðingar þær gætu haft, til dæmis varðandi sjálfboðavinnu.

Bryndís Bjarnadóttir spilaði handabolta með Val í mörg ár en þegar hún var 15 ára kom reyndur þjálfari inn í hópinn og hóf að spjalla við hana í gegnum netið.

Bryndís sagði manninn hafa viljað vingast við sig nema hann var 15 árum eldri og var þjálfarinn hennar. Hann gekk alltaf lengra, alveg þangað til spjallið var orðið kynferðislegt. Hann var þá farinn að segja Bryndísi hvað hún ætti að gera við sjálfa sig og hvernig hann vildi að þau væru saman kynferðislega. Þegar önnur stelpa sagði frá áreitni þjálfarans töluvert síðar steig Bryndís einnig fram. Hann var rekinn frá Val í kjölfarið en leitaði til annarra félaga. Nokkur þeirra höfnuðu honum áður en hann fékk inni hjá öðru.

HSÍ var látið vita af málunum og fjölskylda Bryndísar vildi að manninum yrði bannað að starfa innan hreyfingarinnar. Ekki var hins vegar brugðist við því, meðal annars vegna skorts á sönnunum. Þá var vísað til þess að hann væri einungis í sjálfboðastarfi á þessum tíma, að því er kom fram í frétt Stöðvar 2.

Í tilkynningunni sem HSÍ sendi út vegna málsins segir að sambandið hafi ekki völd til að ákvarða hvort einstakir aðilar geti starfað hjá aðildarfélögum þess, það ákvörðunarvald sé hjá félögunum sjálfum.

„Á sínum tíma brást HSÍ þannig við að umræddur aðili vann ekki sjálfboðastarf fyrir sambandið í u.þ.b. tvö ár eftir það. Eflaust má gagnrýna sambandið fyrir að fela honum afmörkuð verkefni einungis tveimur árum síðar og tekur HSÍ allri gagnrýni með opnum hug og mun gera betur í framtíðinni. Umræddur aðili hefur þó hvergi komið nærri afreks- eða landsliðshópum síðan. Sambandið hefur þegar brugðist við þessari gagnrýni og hafið vinnu að leiðum og reglum sem tryggja stöðu þolenda og taka á þeim álitaefnum sem um ræðir,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert