Ótrúleg endurkoma Hauka skilaði sigri

Haukar lögðu Fram að velli, 24:23, þegar liðin mættust í 13. umferð Olísdeildar kvenna í handbolta í Schenker-höllinni í kvöld. Þetta var fyrsti leikur deildarkeppninnar eftir að um tæplega mánaðar jólafrí hafði verið gert á deildinni. 

Eftir jafnan og hraðan fyrri hálfleik fór Fram með tveggja marka forystu inn í hálfleikinn. Fram hóf síðan seinni hálfleikinn af miklum krafti og náði átta marka forskoti um miðjan seinni hálfleikinn.  

Haukar gáfust hins vegar ekki upp og með Elínu Jónu Þorsteinsdóttur í banastuði bak við þétta vörn Hauka, og Mariu Pereira í feiknastuði í sóknarleiknum náðu Haukar að landa eins marks sigri. 

Maria Pereira var markahæst í liði Hauka með sjö mörk, en Ragnheiður Júlíusdóttir og Elísabet Gunnarsdóttir voru atkvæðamestar í liði Fram með sex mörk hvor. 

Haukar eru í öðru sæti deildarinnar með 21 stig eftir þennan sigur, en liðið er einu stigi á eftir Val sem trónir á toppi deildarinnar.

Fram er hins vegar með 16 stig í þriðja sæti deildarinnar og er fimm stigum á eftir Stjörnunni sem er í næsta sæti fyrir neðan þau lið sem komast í úrslitakeppni deildarinnar í vor. 

Haukar 24:23 Fram opna loka
60. mín. Leik lokið Haukar vinna eftir ótrúlega endurkomu og dramatískan leik.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert