Sex þjóðir tryggðu sér sæti í umspili

Hollenska liðið fagnar sæti sínu í umspilinu.
Hollenska liðið fagnar sæti sínu í umspilinu. Ljósmynd/EHF

Sex þjóðir tryggðu sér um helgina þátttökurétt í umspili um sæti á heimsmeistaramóti karla í handbolta sem fram fer í Þýskalandi og Danmörku á næsta ári. Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag eru lærisveinar Erlings Richardssonar í hollenska landsliðinu ein þeirra þjóða. 

Ásamt Hollendingum tryggðu Litháen, Portúgal, Rússland, Rúmenía og Bosnía sér sæti í umspilinu. Umspilsleikirnir fara fram í sumar og líklegt að Ísland verði á meðal þeirra þjóða sem leika í því, nema liðið nái svo langt á EM að það sleppi við umspilið.

Tvenns konar fyrirkomulag var á riðlunum í forkeppninni. Annars vegar voru riðlar þar sem liðin mættust heima og að heiman og hins vegar riðlar sem spilaðir voru í einu landi og þjóðirnar mættust aðeins einu sinni.

Rússland vann alla sex leiki sína í 1. riðli. Ásamt Rússlandi voru Slóvakía, Finnland og Lúxemborg í riðlinum og unnu Rússar öll liðin tvívegis; heima og að heiman. 

Riðill 2 innihélt Litháen, Léttland, Georgíu og Ísrael og fóru leiknir fram í Litháen. Heimamenn nýttu sér það vel og unnu alla þrjá leiki sína. Riðill 3 var leikinn á Ítalíu, en Rúmenar höfnuðu í efsta sæti hans, stigi á undan heimamönnum. Úkraína hafnaði í þriðja sæti með þrjú stig og Færeyingar í botnsætinu, án stiga. 

Riðill 4 var æsispennandi og að lokum voru það heimamenn í Portúgal sem fóru áfram. Portúgal og Pólland voru bæði með fjögur stig fyrir leik liðanna sem var því hreinn úrslitaleikur um hvor þjóðin færi áfram. Að lokum skildu liðin jöfn, 27:27, og fer Portúgal áfram á betri markatölu, en aðeins munaði einu marki á liðunum. 

Loks fór Bosnía áfram í 5. riðli sem innihélt Sviss og Eistland. Aðeins þrjár þjóðir voru í riðlinum og leikið heima og heiman. Bosnía endaði með sex stig, tveimur meira en Sviss. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert