Fyrsti sigur Gróttu kom gegn Fjölni

Lovísa Thompson með boltann en Berglind Benediktsdóttir er til varnar. …
Lovísa Thompson með boltann en Berglind Benediktsdóttir er til varnar. Lovísa fór á kostum í kvöld. mbl.is/Eggert

Grótta vann sinn fyrsta sigur í Olísdeild kvenna í handbolta er Fjölnir kom í heimsókn á Seltjarnarnesið í 13. umferðinni í kvöld. Eftir spennandi leik urðu lokatölur, 24:22, Gróttu í vil. Liðin eru nú jöfn á stigum með fjögur stig í tveimur neðstu sætunum. 

Fyrri hálfleikurinn var mjög jafn og skiptust liðin á að ná fínum köflum. Munurinn varð fyrst tvö mörk á 12. mínútu í stöðunni 8:6 fyrir Gróttu. Þá skoraði Fjölnir fimm af næstu sex mörkum og breytti stöðunni í 11:9, sér í vil. Lovísa Thompson hafði hægt um sig í upphafi leiks en hún skoraði fimm síðustu mörk Gróttu í hálfleiknum og var langstærsta ástæða þess að staðan í leikhléi var jöfn, 14:14.

Lítið var skorað í upphafi seinni hálfleiks. Grótta náði hins vegar tveggja marka forystu þegar hann var tæplega hálfnaður, 18:16. Þá tóku Fjölniskonur hins vegar við sér, skoruðu næstu fjögur mörk og breyttu stöðunni í 20:18. Grótta skoraði næstu tvö mörk og jafnaði í 20:20 þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

Grótta reyndist sterkari á lokakaflanum og var kærkomnum sigri vel fagnað í leikslok. Lovísa Thompson var besti maður vallarins en hún skoraði tíu mörk og lagði auk þess upp mörg önnur á liðsfélaga sína. 

Grótta 24:22 Fjölnir opna loka
60. mín. Grótta tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert