Karlalandsliðið dreifði stolnu myndunum

Nora Mørk.
Nora Mørk. AFP

Nora Mørk, ein besta handboltakona heims, íhugar nú stöðu sína hjá norska landsliðinu eftir að í ljós kom að leikmenn karlalandsliðsins dreifðu viðkvæmum myndum af henni innan liðsins, en þeim hafði verið stolið.

Sími Mørk var hakkaður síðastliðið haust og viðkvæmar persónulegar myndir af henni láku á netið. Lögreglurannsókn leiddi í ljós að 15 menn brutust inn í síma hennar og dreifðu myndunum og krafðist hún skaðabóta frá hverjum og einum. Nú virðist málið hins vegar hafa tekið aðra og óvænta stefnu.

Mørk segir við Verdens Gang í dag að leikmenn karlalandsliðsins hafi komist yfir myndirnar og dreift sín á milli. Þá hafi norska handknattleikssambandið reynt að þagga málið niður. „Ég er gríðarlega vonsvikin og ég hélt að þetta fólk vildi mér allt það besta,“ sagði Mørk.

Hún íhugar nú að hætta með norska kvennalandsliðinu, þar sem hún spilar undir stjórn Þóris Hergeirssonar. Hún segist ekki vilja vera hluti af íþróttasambandi sem vilji frekar hlaupa undir bagga fyrir afbrotamenn en þolendur.

Þórir hefur sjálfur tjáð sig um málið og ítrekar stuðning við Mørk.

mbl.is