ÍBV sigraði Stjörnuna í spennuleik

Elena Birgisdóttir sækir að marki ÍBV í dag. Sandra Dís …
Elena Birgisdóttir sækir að marki ÍBV í dag. Sandra Dís Sigurðardóttir og Kristrún Hlynsdóttir fylgjast með. mbl.is/Eggert

Stjarnan tók á móti ÍBV í 14. umferð Olísdeildar kvenna í handbolta í Ásgarði í dag. Eftir jafnan og sveiflukenndan leik voru það Eyjakonur sem unnu að lokum 27:25 sigur til að styrkja stöðu sína í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.

Það var afar lítið sem skildi liðin að í fyrri hálfleik og var munurinn aldrei meiri en tvö mörk. Eyjakonur voru yfir framan af en Ester Óskarsdóttir var komin með fimm mörk í hálfleik. Heimakonur spýttu í lófana rétt fyrir hlé var staðan 12:11 í hálfleik, Stjörnunni í vil.

Heimakonur hófu síðari hálfleikinn með látum, Ramune Pekarskyte skoraði að vild og náði Stjarnan um tíma þriggja marka forystu. ÍBV, með Ester Óskarsdóttur í fararbroddi, átti þó eftir að snúa taflinu við og var um tíma einnig með þriggja marka forystu en sveiflurnar í leiknum voru margar og hann spennandi allt til enda.

Að lokum voru það gestirnir frá Vestmannaeyjum sem báru sigur úr býtum en Asun Batista og Sandra Erlingsdóttir skoruðu mikilvæg mörk undir lok leiks til að tryggja sigurinn en sömuleiðis varði Guðný Jenný Ásmundsdóttir nokkur mikilvæg skot. ÍBV fer þar með upp fyrir Fram í þriðja sætið og er nú með 17 stig. Stjarnan fjarlægist sæti í úrslitakeppninni eftir þetta tap en liðið situr í 5. sæti, fimm stigum frá Frömurum í því fjórða.

Stjarnan 25:27 ÍBV opna loka
60. mín. Shadya Goumaz (ÍBV) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert