Ég var við það að gefast upp

Þorgerður Anna Atladóttir brýst í gegnum vörn Fjölnis, einu sinni …
Þorgerður Anna Atladóttir brýst í gegnum vörn Fjölnis, einu sinni sem oftar í leiknum í Grafarvogi í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnúss.

„Þetta var fullkominn leikur til að koma okkur á strik aftur – spila okkur betur saman og finna okkur bæði í vörn og sókn. Það gekk mjög vel, sérstaklega í fyrri hálfleik,“ sagði Þorgerður Anna Atladóttir sem skoraði sjö mörk fyrir Stjörnuna í 29:22-sigrinum á Fjölni í Olís-deildinni í handbolta í kvöld.

Þorgerður Anna kom lítið sem ekkert við sögu hjá Stjörnunni fyrir áramót og hafði aðeins skorað eitt mark á leiktíðinni fyrir leikinn í kvöld. Þessi 25 ára gamla skytta hefur verið afskaplega seinheppin hvað meiðsli varðar á sínum þó ansi farsæla ferli:

„Ég er búin að eiga mjög erfitt tímabil, og bara erfið ár í rauninni, og þetta hefur tekið mjög mikið á. Ég var alveg við það að gefast upp en svo ákvað ég að slaka aðeins á og taka til á öllum sviðum í lífinu, róa mig aðeins og sýna meiri þolinmæði. Ég held ég verði aldrei alveg heil, en mér finnst ógeðslega gaman í handbolta og ég tími ekkert að hætta strax. Þó að maður finni aðeins til þá harkar maður bara af sér,“ sagði Þorgerður.

Stjarnan er nú með 13 stig í 5. sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir ÍBV en fjögur efstu liðin í lok leiktíðar komast í úrslitakeppnina. Þangað vill Þorgerður:

„Það hefði verið ógeðslega sterkt hjá okkur að vinna leikinn við ÍBV í síðustu umferð. Við spiluðum ágætlega en gerðum klaufamistök sem við megum ekki við núna. Við erum komnar upp við vegg og þurfum að vinna alla leiki, og við munum berjast á meðan að möguleikinn er til staðar á að komast í þessa úrslitakeppni,“ sagði Þorgerður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert