Þorgerður komst í gang í öruggum sigri Stjörnunnar

Þórey Anna Ásgeirsdóttir sækir að vörn Fjölnis í kvöld.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir sækir að vörn Fjölnis í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Magnússon.

Stjarnan vann nokkuð öruggan sigur á Fjölni í 14. umferð Olís-deildar kvenna í handbolta í kvöld, 29:22, eftir að hafa einnig verið sjö mörkum yfir í hálfleik, 15:8.

Stjarnan er þar með komin með 13 stig eftir 13 leiki, í 5. sæti, og er fjórum stigum á eftir næsta liði sem er ÍBV. Fjölnir er á botni deildarinnar með 4 stig líkt og Grótta, þremur stigum á eftir Selfossi.

Fjölniskonur byrjuðu leikinn vel og jafnt var á með liðunum fram í miðjan fyrri hálfleik. Þá hrökk Þorgerður Anna Atladóttir í gang og Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði einnig góð mörk, á meðan að Fjölnisliðið komst lítt áleiðis í sókninni. Þorgerður Anna, sem óhætt er að segja að hafi verið meiðslum hrjáð á sínum ferli, endaði markahæst Stjörnunnar með sjö mörk en hún hafði skorað 1 mark fram að því í vetur og lítið getað beitt sér.

Karen Birna Aradóttir átti fína innkomu í mark Fjölnis í seinni hálfleik og heimakonur gerðu sig um tíma líklegar til að hleypa spennu í leikinn. Þær minnkuðu muninn nokkrum sinnum í fjögur mörk en fengu ekki að komast nær. Mikið mæddi á Berglindi Benediktsdóttur leikstjórnanda en Andrea Jacobsen var markahæst Fjölnis með sjö mörk þrátt fyrir að vera í stífri gæslu stóran hluta leiksins.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is. Viðtöl koma inn síðar í kvöld og fjallað verður um leiki kvöldsins í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Fjölnir 22:29 Stjarnan opna loka
60. mín. Leik lokið Öruggur sigur Stjörnunnar. Grunnurinn var lagður með góðum kafla í seinni hluta fyrri hálfleiks. Eftir það var aldrei mikil spurning hvernig færi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert