Forskotið var orðið of mikið

Berglind Benediktsdóttir er algjör lykilmaður í liði Fjölnis, í vörn …
Berglind Benediktsdóttir er algjör lykilmaður í liði Fjölnis, í vörn og sókn. mbl.is/Eggert

„Þetta var frekar lélegur leikur. Við náðum ekki að sýna okkar bestu getu,“ sagði Berglind Benediktsdóttir, leikstjórnandi Fjölnis, eftir 29:22-tap gegn Stjörnunni í Olís-deildinni í handbolta í kvöld.

Fjölnir byrjaði leikinn vel en um miðjan fyrri hálfleik náði Stjarnan góðum kafla og skapaði sér forskot sem Fjölni tókst aldrei að éta alveg upp:

„Við prófuðum nýja vörn sem gekk mjög vel fyrstu tíu mínúturnar. En svo fórum við að telja aðeins vitlaust, og fengum frekar auðveld mörk á okkur. Við náðum heldur ekki að bakka nógu vel til baka og töpuðum boltanum of gjarnan. Hins vegar náðum við að gera vel þegar við vorum manni færri, skora tvö mörk þannig, og sýna góða frammistöðu í seinni hálfleik. Við komum rosalega sterkar inn í seinni hálfleik og rifum okkur vel í gang, en það var ekki nóg því þetta var mikið forskot til að elta uppi,“ sagði Berglind.

Staða Fjölnis í fallbaráttunni versnaði enn í kvöld en liðið er á botni deildarinnar með 4 stig líkt og Grótta, sem vann Fjölni í síðustu umferð:

„Leikurinn á móti Gróttu var enginn úrslitaleikur. Við eigum eftir að mæta þeim aftur, og Selfossi, og ætlum auðvitað að vinna þessa leiki, og svo reynum við að stríða þessum stórliðum. Við getum alveg haldið okkur uppi þrátt fyrir þennan leik við Gróttu, sem við hefðum þó átt að vinna,“ sagði Berglind.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert