Meistararnir fyrstir til að vinna toppliðið

Sigurbjörg Jóhannsdóttir brýst í gegnum vörn Vals í kvöld.
Sigurbjörg Jóhannsdóttir brýst í gegnum vörn Vals í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fram varð í kvöld fyrsta liðið til að leggja topplið Vals að velli í Olísdeild kvenna í handbolta. Eftir jafnan leik, þar sem varnarleikurinn var mun betri en sóknarleikurinn, hafði Fram betur, 24:18. 

Framkonur fóru betur af stað. Með sjóheita Guðrúnu Ósk Maríasdóttur fyrir aftan sterka vörn komst Fram í 5:2 snemma leiks. Þá hafði Guðrún varið fjögur skot, þar af eitt víti og auk þess lagt upp tvö mörk með glæsilegum sendingum upp völlinn.

Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var staðan 7:3 fyrir Fram og vörnin ekki í miklum vandræðum með að stöðva sókn toppliðsins. Þá fór hins vegar allt í baklás í sóknarleik Framara og Valskonur söxuðu hægt og rólega á forskotið. Að lokum jöfnuðu þær í 8:8 og komust yfir í kjölfarið, 9:8, og þannig var staðan í hálfleik. Fram skoraði aðeins eitt mark á síðustu 15 mínútum fyrri hálfleiks.

Þrátt fyrir að tvö góð lið væru að mætast var leikurinn ekki sérstaklega vel spilaður í fyrri hálfleiknum. Valskonur misstu boltann ellefu sinnum í hálfleiknum og Fram átta sinnum. Í flestum tilvikum fóru auðveldar sendingar, beint á mótherjann.

Fram fór vel af stað í seinni hálfleik og komst yfir 10:9, með því að skora tvö fyrstu mörk hans. Eins og í fyrri hálfleiknum tókst liðunum illa að skora og var staðan 10:10 fram að 40. mínútu. Þá komst Fram yfir, 11:10 og svo 12:10. Munurinn varð svo þrjú mörk rúmum tíu mínútum fyrir leikslok, 15:12, í hálfleik sem var beint framhald af þeim fyrri, slakur sóknarleikur, góður varnarleikur og þokkaleg markvarsla.

Framkonur voru þó sterkari aðilinn og sóknarleikur þerra á síðustu mínútunum var mun skárri en það sem boðið var upp á stærstan hluta leiks. Að lokum nægði það til sigurs og Fram fór upp fyrir ÍBV og upp í þriðja sæti deildarinnar með sigrinum. Valur er enn í toppsætinu, þrátt fyrir tapið.

Fram 24:18 Valur opna loka
60. mín. Sigurbjörg Jóhannsdóttir (Fram) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert