Veit ekki hvort ég taki þessu persónulega

Frá leiknum í kvöld.
Frá leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það var áræðni og grimmd sem skildi að. Það var þeirra megin í dag á meðan það vantaði upp á hjá okkur,“ sagði Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, leikmaður Vals, eftir 24:18-tap gegn Fram í Olísdeildinni í handbolta.

Leikurinn var jafn og spennandi lengst af en Framliðið var mun sterkara á lokakaflanum. 

„Lokatölurnar gefa ekki alveg rétta mynd. Þær bættu við í lokin þegar okkur fannst leikurinn búinn og við slökuðum á. Sá munur var ekki allan tímann, en þær voru betri aðilinn og við þurfum að sætta okkur við það. Þær koma sterkari til leiks í seinni hálfleik. Við mætum aðeins of seinar til leiks.“

Anna Úrsúla gekk á dögunum í lið Vals, en hún fæddi sitt annað barn fyrir tveimur mánuðum. 

„Þetta er búið að vera fínt. Það er frábært að fá að koma að sprikla aðeins og koma sér í form. Á meðan maður nýtur þess, þá er þetta gaman.“

Fyrir leikinn hafði Valur ekki tapað leik í deildinni. Anna grínaðist með það að hún ætlaði að taka þessu persónulega, þar sem liðið tapaði stuttu eftir að hún kom til þess. 

„Ég veit ekki hvort ég eigi að taka þessu persónulega. Auðvitað er ekkert lið ósigrandi. Valur er búið að standa sig ótrúlega vel í vetur. Fram er eitt af toppliðum deildarinnar og ætti að vera ofar. Svona er lífið og sigurinn hjá þeim var sanngjarn í kvöld,“ sagði Anna að lokum. 

mbl.is