Við lærðum af síðasta leik

Sigurbjörg Jóhannsdóttir skoraði 10 mörk í kvöld.
Sigurbjörg Jóhannsdóttir skoraði 10 mörk í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurbjörg Jóhannsdóttir, leikmaður Fram, var eins og gefur að skilja hæstánægð með 24:18-sigurinn á Val í Olísdeild kvenna í handbolta í kvöld. Sigurbjörg skoraði tíu mörk í leiknum og var langbesti sóknarmaður Fram. Fram tapaði naumlega gegn Haukum í síðasta leik og segir hún liðið hafa lært af þeim leik. 

„Við vorum nokkuð stöðugar allan leikinn og vorum yfir. Við stjórnuðum leiknum meira og þær þurftu að elta. Við lærðum af síðasta leik, leikurinn er 60 mínútur og það þýðir ekkert að gefa eftir.“

Valskonur komust yfir undir lok fyrri hálfleiks og voru yfir í hálfleik. Fram skoraði aðeins eitt mark síðasta korterið í hálfleiknum.

„Síðustu tíu mínúturnar í fyrri hálfleik fóru í bull. Við vorum að spila góðan varnarleik en við vorum að æða fram og gera allt of mikið af mistökum. Við vorum allt of gráðugar í hraðaupphlaupin. Við náðum svo að núllstilla okkur í hálfleik og koma einbeittari í seinni hálfleikinn.“

„Við vorum einu undir í hálfleik en okkur leið eins og við ættum að vera yfir. Við vorum að spila góða vörn og gera vel. Það vantaði að fara betur með færin.“

Sigurbjörg segir það sýna styrkleika Fram að liðið varð það fyrsta til að leggja topplið Vals af velli.

„Það er virkilega gott. Það sýnir okkar styrkleika og ég er mjög ánægð,“ sagði Sigurbjörg að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert