Litháar bitu frá sér í síðustu undankeppni

Giedrius Morkunas, fyrrverandi markvörður Hauka, leikur með Litháum.
Giedrius Morkunas, fyrrverandi markvörður Hauka, leikur með Litháum. .mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Ísland mun mæta Litháen heima og að heiman í umspili um sæti í lokakeppni HM karla í handknattleik sem fram fer í janúar á næsta ári.

Ísland er sigurstranglegra liðið í þeirri rimmu út frá öllu eðlilegu viðmiði en ekki er þó endilega víst að um lauflétt verkefni sé að ræða. Frasinn um sýnda veiði sem ekki sé gefin kemur upp í hugann.

Þótt flestir tengi Litháen meira við körfubolta en handbolta þá náði karlalandslið Litháens mjög áhugaverðum úrslitum í undankeppninni fyrir EM í Króatíu. Sérstaklega er frammistaða Litháa í tveimur leikjum áhugaverð.

Lagði Litháen til dæmis sterkt lið Norðmanna að velli 32:29 hinn 6. nóvember 2016. Í júní á síðasta ári tapaði Litháen með minnsta mun fyrir heimsmeisturum Frakka, 25:26, en Frakkar og Norðmenn komust áfram á EM í Króatíu. Frakkar fengu þar bronsverðlaun og Norðmenn komust í milliriðil. Miklar sveiflur virðast vera í frammistöðu Litháa eftir því hvort þeir spila á heimavelli eða ekki. Liðið tapaði fyrir Norðmönnum 30:20 á útivelli og 37:20 fyrir Frökkum.

Í riðlinum unnu Litháar auk þess Belga tvívegis. Þeir fóru í forkeppni vegna umspilsins um sæti á HM og unnu þar Lettland, Georgíu og Ísrael sem eru ekki háttskrifaðir andstæðingar.

Tengingar við Ísland

Í landsliði Litháens eru miklar tengingar við Ísland. Þrír leikmenn sem leikið hafa á Íslandi hafa verið viðloðandi landsliðið. Þeirra þekktastur er væntanlega markvörðurinn Giedrius Morkunas sem varð Íslandsmeistari með Haukum. Auk þess kannast handknattleiksunnendur hérlendis við þá Karolis Stropus á Akureyri, sem einnig hefur leikið með Víkingi, og Mindaugas Dumcius, fyrrverandi leikmann Akureyrar. Framkvæmdastjóri litháíska sambandsins er Miglius Astrauskas sem þjálfaði HK 2004 til 2008. Hann er fyrrverandi landsliðsþjálfari Litháens.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert