Akureyri vann uppgjör Akureyrarliðanna

Arnar Þór Fylkisson, markvörður Akureyrarliðsins, sigri hrósandi í kvöld. Hann ...
Arnar Þór Fylkisson, markvörður Akureyrarliðsins, sigri hrósandi í kvöld. Hann var frábær í leiknum. Til vinstri Hafþór Vignisson sem var markahæstur í Akureyrarliðinu með sjö mörk. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Akureyri handboltafélag fagnaði sigri á KA í uppgjöri Akureyrarliðanna í toppbaráttu Grill 66-deildarinnar í handknattleik karla í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld, 24:20. Þar með hefur Akureyri þriggja stiga forskot á KA í efsta sæti deildarinnar að þegar 13 umferðir af 18 eru að baki. 

Akureyrarliðið hafði yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda og var m.a. með þriggja marka forskot í hálfleik, 11:8, eftir að KA hafði skorað tvö síðustu mörk hálfleiksins.

KA-liðinu tókst aldrei að minnka muninn verulega í síðari hálfleik og munaði þar mestu um stórleik Arnars Þórs Fylkissonar í marki Akureyrar. Hann varði afar vel, ekki síst í opnum færum.

Hafþór Vignisson skoraði sjö mörk fyrir Akureyri og var markahæstur. Brynjar Þór Grétarsson og Igor Kopyshyrnsyi skoruðu fimm mörk hvor.  Heimir Örn Árnason var markahæstur hjá KA með fimm mörk og Ólafur Jóhann Magnússon var næstur með fjögur mörk. 

Akureyri hefur þar með 23 stig eftir 13 leiki í deildinni. KA er með 20 stig og HK 18 og Haukar U hafa 17 stig. Akureyri mætir Haukum U í næstu umferð en Haukarnir gerðu KA-liðinu skráveifu á dögunum. 

HK vann Haukana með tveggja marka mun, 23:21, í Digranesi í kvöld. Þá vann Þróttur Reykjavík liðsmenn Mílunnar, 26:20, í Laugardalshöll. 

mbl.is