Líður ekki eins og ég hafi verið lengi frá

Karen Knútsdóttir í leik með Fram.
Karen Knútsdóttir í leik með Fram. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karen Knútsdóttir, landsliðsfyrirliði og leikmaður Fram, var hress og kát er hún spjallaði við mbl.is eftir sannfærandi 37:26-sigur Fram á Stjörnunni í Olísdeild kvenna í handbolta í kvöld. Hún segir sigurinn hafa verið liðssigur og flest hafi gengið býsna vel.

„Við vorum að spila virkilega vel saman sem lið og það var gott flæði í sóknarleiknum. Það er auðvitað gott að skora 37 mörk. Guðrún var frábær í markinu og varnarleikurinn var allt í lagi, hann hefur verið betri, en þetta var liðssigur," sagði Karen.

Hún hefur verið að glíma við meiðsli í nánast allan vetur, en hún sleit hásin í uppahafi leiktíðar. Hún hefur unnið hörðum höndum við að koma til baka, mánuði áður en búist var við. Henni líður ekki eins og hún sé nýstigin upp úr erfiðum meiðslum og það sást. Karen spilaði vel í kvöld.

„Mér líður virkilega vel og það hefur gengið mjög vel að jafna mig. Ég hef verið hjá Stebba sjúkraþjálfara sem er meistari í hásinum. Svo hef ég verið að æfa með Mark í World Class sem er búinn að hjálpa mér ógeðslega mikið. Mér líður ekki eins og ég sé búin að vera lengi frá."

„Venjulega tekur það sex mánuði að jafna sig á þessum meiðslum og það væri eðlilegt ef ég kæmi til baka í kringum bikarúrslitahelgina. Ég náði að koma til baka eftir fimm mánuði og mér líður vel, sem er það mikilvægasta. Þetta er þriðji leikurinn sem ég spila og ég hef verið á skýrslu í fimm leikjum. Ég hef verið að spila 10-15 mínútur í hvorum hálfleik, svo ég er hægt og rólega að komast í spilform."

Fram hefur spilað vel að undanförnu og er ljóst að Íslandsmeisturunum eru allir vegir færir með innkonu Karenar. Steinunn Björnsdóttir er einnig komin á fullt eftir að hún fæddi barn.

Vonandi náum við að toppa á réttum tíma

„Það var mjög mikilvægt að fá Steinunni inn í janúar, hún er fyrirliði liðsins og mikill baráttuhundur. Hún hjálpar okkur gríðarlega mikið. Það er kominn meiri liðsbragur á þetta. Við erum með mjög góðan mannskap og vonandi erum við að toppa á réttum tíma."

Það hefur lítið gengið hjá Stjörnunni í vetur, en Fram og Stjarnan hafa barist á toppi deildarinnar á síðustu árum. 

„Stjarnan er búið að missa gríðarlega mikið af leikmönnum á þessu tímabili og maður vissi að þetta yrði erfitt hjá þeim, þar sem þær hafa verið óheppnar. Það eru enn góðir leikmenn í þessu liði, en það gleymist stundum að það vantar mannskap í liðið."

Karen hrósaði Ragnheiði Júlíusdóttur, liðsfélaga sínum í leikslok. Ragnheiður skoraði 12 mörk, lagði upp nokkur til viðbótar og spilaði virkilega vel.

„Ragnheiður átti virkilega góðan leik, þetta var mögulega hennar besti leikur í vetur. Hún var að skjóta vel og finna línuna mjög vel. Það var gott flæði í gegnum hana. Hún er líka góð í vörn, hún er vanmetinn varnarmaður, hún stóð sig vel í dag," sagði landsliðsfyrirliðinn, Karen Knútsdóttir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert