Naumur sigur Hauka á Selfossi

Berta Rut Harðardóttir var markahæst hjá Haukum í mikilvægum sigri …
Berta Rut Harðardóttir var markahæst hjá Haukum í mikilvægum sigri á Selfossi í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Haukar halda öðru sæti Olís-deildar kvenna í handknattleik eftir nauman sigur á Selfossi, 23:22, í viðureign liðanna á Selfossi í kvöld. Á sama tíma gjörsigraði topplið deildarinnar, Valur, lið Fjölnis, 28:10, í Dalhúsum þar sem heimaliðið skoraði aðeins fjögur mörk í fyrri hálfleik.

Haukar hafa þar með 26 stig í öðru sæti deildarinnar eins og Fram. Valur er tveimur stigum á undan. 

Haukar voru marki yfir í hálfleik á Selfossi í kvöld, 11:10. Berta Rut Harðardóttir var markahæst hjá Haukum með sex mörk. María Ines Pereira og Hekla Rún Ámundadóttir skoruðu þrjú mörk hvor. Perla Rut Albertsdóttir var markahæst hjá Selfossi. Hún skoraði níu mörk. Hulda Dís Þrastardóttir og Ída Bjarklind Magnúsdóttir skoruðu fjögur mörk hvor. 

Eins og úrslitin í leik Fjölnis og Vals bera með sé þá voru yfirburðir Valskvenna miklir í Dalhúsum.  Staðan í hálfleik var 10:4, Val í vil.

Ólöf Kristín Þorsteinsdóttir skoraði átta mörk fyrir Val og var markahæst.  Kristín Arndís Ólafsdóttir var næst með sjö mörk. Berglind Benediktsdóttir var atkvæðamest hjá Fjölni með fimm mörk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert