Sýndum strax hungrið að komast í Höllina

Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, á hliðarlínunni, í leik liðsins gegn …
Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, á hliðarlínunni, í leik liðsins gegn Gróttu í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum sáttir við að landa hér nokkuð sannfærandi sigri og ná því markmiði okkar að komast í undanúrslit í bikar. Við höfum átt í erfiðleikum með að hefja leikina af fullum krafti í vetur, en það var ekki uppi á teningnum í kvöld. Við náðum fljótt upp sterkri vörn og þar af leiðandi komst Stephen Nielsen fljótlega í gang í markvörslunni,“ sagði Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, í samtali við mbl.is eftir að lið hans tryggði sér sæti í undanúrslitum Coca Cola-bikars karla í handbolta með 34:25-sigri gegn Gróttu í kvöld.

„Það var ljóst frá upphafi að strákarnir ætluðu sér í Laugardalshöllina og heilt yfir var þetta góð frammistaða að mínu mati. Ég var ekki alveg nógu ánægður með að missa Andra Heimi [Friðriksson] af velli með rautt spjald. Dómarar leiksins mátu það þannig að hann hefði svarað of harkalega fyrir sig eftir að það var brotið. Ég þarf að sjá þetta betur á myndbandi til þess að geta metið þetta,“ sagði Arnar enn fremur. 

„Nú eru fram undan margir úrslitaleikir og þannig viljum við hafa það. Við höldum til Ísrael á morgun og förum í skemmtilegt verkefni þar. Það verður skemmtilegt verkefni og vonandi komust við áfram í þeirri keppni. Það er nóg að gera hjá okkur og þannig viljum við hafa það á þessum tímapunkti,“ sagði Arnar um framhaldið hjá ÍBV. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert