Erum með rosalega þunnskipaðan hóp

Alfreð Finnsson þjálfari Gróttu.
Alfreð Finnsson þjálfari Gróttu. mbl.is/Hari

Alfreð Örn Finnsson og lið hans Grótta fóru ekki í frægðarför til Vestmannaeyja í dag en liðið tapaði með fjórtán marka mun fyrir ÍBV í Olís-deild kvenna. Alfreð og lið hans hafa nú tapað síðustu þremur leikjum með samtals 53 mörkum.

„Þetta er auðvitað orðið mikið og erfitt að tapa með fleiri en tíu mörkum, mér fannst við þó allavega í dag koma út úr hálfleiknum og hættum ekki. Við hefðum leikandi geta tapað þessum leik með þrjátíu mörkum eftir fyrri hálfleikinn. Það er svekkjandi í fyrri hálfleik þegar staðan er 8:4 og við köstum þessu rosalega auðveldlega frá okkur. Við gerum aragrúa mistaka og ÍBV keyrðu yfir okkur eins og allir sáu. Það sem ég hugsa strax eftir leikinn er að mér fannst Katrín Helga (Sigurbergsdóttir) rosalega flott í leiknum, hún er í 4. flokki og framtíðarstelpa hjá okkur, við verðum að hugsa á þessum nótum hvernig sem þetta tímabil endar.“

Grótta kemur einungis með tíu leikmenn til Vestmannaeyja í dag, Lovísa Thompson, þeirra besti leikmaður, fær síðan rautt spjald eftir tíu mínútur. Það hefur verið dimmt yfir mönnum á bekknum.

„Nei, nei, við erum með rosalega þunnskipaðan hóp, ég var í vandræðum með að manna þessar tíu í dag. Ég og við ákváðum að bæði spara og að þær sem myndu fara myndu spila. Ég er með rosalega margar ungar stelpur og það eru plúsar og mínusar við þetta. Við hefðum auðvitað geta verið með tveimur fleiri en það í sjálfu sér hefur engin áhrif. Auðvitað er það áfall fyrir okkur að missa Lovísu út, það væri það fyrir öll lið í deildinni.“

Nokkrir leikir eru eftir af tímabilinu og þeir eru gríðarlega mikilvægir fyrir Gróttu, næstu tvö verkefni eru erfiðir leikir gegn Val og Fram en síðan taka við leikir gegn Selfossi og Fjölni.

„Þetta eru rosalega mikilvægir leikir, staðan er þannig að við erum að fara í Fram næst og við eigum Val eftir úti. Þetta eru ekki leikir sem maður horfir björtum augum á, af þessum fjórum eigum við einnig Selfoss og Fjölni sem verður meira á jafnréttis grundvelli fyrir okkur og er eitthvað sem við hlökkum til. Ég er þó allavega ánægður með í dag að við gefumst ekki upp og klárum leikinn og þokumst í rétta átt, við erum á lífi og það er þannig sem við verðum að horfa á þetta.“

Hvað fannst Alfreð um dóminn sjálfan, rauða spjaldið?

„Ég held að þetta sé alveg rétt, það eru auðvitað afleiðingar brotsins, ég vona bara að hún jafni sig, að það komi ekki meiðsli út úr þessu. Alltaf tvær mínútur, en ég get ómögulega metið þetta hundrað metra frá, ég held að þetta sé bara rétt ákvörðun. Lovísa missir af henni þegar Sandra hoppar inn, það er sama, þarna er snerting sem á ekki að eiga sér stað, það er bara þannig,“ sagði Alfreð að lokum en það skal tekið fram að ásetningurinn virtist ekki vera neinn í brotinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert