Í eins leiks bann fyrir punghöggið

Jóhann Birgir Ingvarsson í leik með FH gegn Víkingi.
Jóhann Birgir Ingvarsson í leik með FH gegn Víkingi. mbl.is/Árni Sæberg

Jóhann Birgir Ingvarsson, leikmaður karlaliðs FH, hefur verið úrskurðaður í eins leiks bann af aganefnd HSÍ.

Í bikarleik FH og Fram í Kaplakrika í síðustu viku sló Jóhann Birgir í punginn á Svani Páli Vil­hjálms­syni sem lá óvígur eftir og þurfti að fara af velli. RÚV náði atvikinu upp á myndband og í framhaldi barst málið inn á borð HSÍ sem vísaði því til aganefndar.

Sjá myndskeið af atvikinu

Úrskurður aganefndar HSÍ:

„Stjórn HSÍ hefur vísað til aganefndar í samræmi við 6. kafla reglugerðar HSÍ um agamál atviki sem kom upp í leik FH og Fram í bikarkeppni mfl. ka. 8. feb. 2018. Jafnframt hefur aganefnd kynnt sér upptöku af atvikinu í samræmi við 5. gr. fyrrgreindrar reglugerðar. Aðilum málsins sem og dómurum hefur verið gefinn kostur á að skila inn greinargerð. Í greinargerð dómara kemur fram að hvorki þeir né eftirlitsmaður sáu atvikið.

Greinargerð barst jafnframt frá FH. Af upptöku frá leiknum er ljóst að atvikið var með þeim hætti að eftir að hafa skorað mark og á leið í vörn slær Jóhann Birgir Ingvarsson leikmaður FH með hendi milli fóta leikmanns Fram og liggur hann óvígur eftir. Þó [að] höggið virðist ekki hafa verið þungt er ljóst að leikmaðurinn sló annan leikmann af ásetningi og afleiðingar urðu allnokkrar. Niðurstaða aganefndar er að Jóhann Birgir Ingvarsson leikmaður FH er úrskurðaður í eins leiks bann.“

Jóhann Birgir tekur út bannið gegn Íslandsmeisturum Vals þegar liðin mætast í Olís-deildinni í Kaplakrika á mánudagskvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert